Innlent

Mikil loðna og kvóti aukinn

Hægt verður að auka loðnukvótann verulega miðað við þá loðnu sem fundist hefur í rannsóknarleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar. Rannsóknarskipið Árni Friðriksson hélt til leitar ásamt níu loðnuskipum fyrir um viku síðan og hefur verið leitað frá sunnanverðum Vestfjörðum austur að Norðfjarðarflóa. Gert er ráð fyrir að loðnumælingu ljúki um eða upp úr miðri næstu viku og í kjölfarið mun Hafrannsóknastofnunin gera tillögur um endanlegt aflamark á yfirstandandi loðnuvertíð. Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, segir að mikil óvissa hafi ríkt um hversu mikla loðnu væri hægt að veiða á yfirstandandi vertíð þar sem mælingar hafi gengið illa í haust og áður en þeim var hætt fyrir áramót. Nú sé hins vegar búið að finna loðnuna og sjómenn og útgerðarmenn geti gert ráð fyrir því að kvótinn verði aukinn en um endanlega niðurstöðu mælinga og tillögur stofnunarinnar um aflamark sé ekkert hægt að segja fyrr en að leiðangri loknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×