Innlent

Ólíkt hlutskipti kvennastétta

Fleiri flugfreyjur reykja og þær drekka oftar áfengi en kennarar eða hjúkrunarfræðingar. Flugfreyjurnar eru líka duglegri að stunda líkamsrækt. Þetta sýna nýjar niðurstöður rannsóknar sem tók til tengsla vinnu, heilsufars og lífsstíls í þremur hefðbundnum kvennastéttum. Mikil umræða hefur verið um streitu í starfi hjúkrunarfræðinga en ný samanburðarrannsókn á þremur kvennastéttum sýnir fram á að streita meðal þeirra er mun minni en hjá flugfreyjum og kennurum, þar sem konur eru einnig í meirihluta. Herdís Sveinsdóttir, sem stóð að rannsókninni, segir að hjúkrunarfræðingar vinni meira saman en hinar stéttirnar og að hún haldi að það megi rekja til fjölbreytileika í störfum hjúkrunarfræðinga. Flugfreyjur reykja frekar og drekka oftar áfengi en hjúkrunarfræðingar og kennarar. Þá kvarta þær yfir litlu atvinnuöryggi, óþægindum í vinnuumhverfi og líkamlega erfiðri og einhæfri vinnu. Þær eru hins vegar duglegri að stunda líkamsrækt og voru hávaxnari og grennri en konur úr hinum starfsstéttunum. Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, sem einnig stóð að rannsókninni, segir flugfreyjur verði oftar fyrir kynferðislegri áreitni en hinir hóparnir verði hins vegar fyrir alls konar hótunum og áreitni af öðrum toga. Flugfreyjur og kennarar finna fyrir mikilli streitu í starfi og ekki var marktækur munur á þessum starfsstéttum. Hólmfríður segist þó telja ástæðu til að kanna betur ýmsa þætti í kennarastarfinu. Almenn líkamleg og andleg heilsa kennslukvenna hafi að sumu leyti verið verri. Vinnuumhverfi kvenna hafi ekki verið mikið rannsakað þannig að full ástæða sé til að skoða það og þá kannski með tilliti til fjölskyldunnar sem nú sé mikið í umræðunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×