Innlent

Verðmæti eigna um 15 milljarðar

Verðmæti þeirra eigna sem seldar yrðu í tengslum við byggingu nýs sjúkrahúss við Hringbraut er um fimmtán milljarðar króna, segir Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar. Ekki hefur verið rætt í ríkisstjórn hvort nota eigi fjárhæðina sem fæst fyrir sölu Símans til að byggja nýjan spítala en málið verður rætt á næstunni. Davíð Oddsson utanríkisráðherra varpaði fram þeirri hugmynd í gær á fundi sjálfstæðismanna í Valhöll að nota mætti þá fjármuni sem ríkið fær við sölu Símans til að reisa fullkomið sjúkrahús. Samfylkingin flutti þingsályktunartillögu um að fara þessa fjármögnunarleið fyrir ári. Kristján L. Möller, fyrsti flutningsmaður tillögunnar, fagnar ummælum utanríkisráðherra og þeim stuðningi sem tillagan hafi fengið, að skapa skuli þjóðarátak við að byggja Landspítala fyrir Landssíma. Áætlaðar tekjur af sölu Símans eru um 40 milljarðar króna. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir kostnaðaráætlun fyrir byggingu nýs sjúkrahúss hljóða upp á 36 milljarða. Hann vill ekki tjá sig um það að svo stöddu hvort eyrnamerkja eigi alla fjárhæðina, sem fæst fyrir sölu Símans, byggingu nýs spítala en segir ljóst að fjármögnunin verði í það minnsta ekki eingöngu tengd fjárlögum. Málið hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn og segist heilbrigðisráðherra fyrst hafa heyrt af þessari hugmynd Davíðs í fréttum af fundi Sjálfstæðisflokksins í gær. Næsta skref sé hins vegar að efna til samkepppni um deiliskipulag sjúkrahússins og mun ráðherrann leggja fram tillögu þess efnis í ríkisstjórninni á næstunni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×