Innlent

Kjötfjöll úr sögunni

Hátt í fimmtíu tonn af kjöti hafa verið flutt til landsins á þessu ári. Neysla lambakjöts hefur aukist það mikið að allt kjöt frá síðustu sláturtíð klárast í haust. Það stefnir í að allt lambakjöt frá síðustu sláturtíð verði uppurið þegar nýtt kjöt kemur á markað í september. Þetta er allt annað ástand en þegar kjötfjöll hrönnuðust upp á sínum tíma, og það kjöt sem ekki var urðað var sett á sumarútsölur. Gripafjöldi hefur staðið í stað í sex ár, svo ljóst er að neyslan hefur stóraukist. Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Landssambands sauðfjárbænda segir að við séum búin að éta kjötfjöllin. Hér hefur ekki verið urðað kjöt í áratugi. Hann sagði vandamálið vera það að í upphafi sláturtíðar er of mikið framboð en núna er staðan breytt því lagerinn er tómur í upphafi sláturtíðar.  Özur lofar því að til verði nóg af lambakjöti á grillið, og segir að slátrun sé þegar hafin. Smásöluverð lambakjöts hefur nánast staðið í stað í fjölmörg ár, en ætla má að nú verði breyting á. Özur segir að eflaust verði einvher verðhækkun en hún muni þó ekki verulega á óvart. En það er ekki bara lambakjötið sem gengið hefur óvanalega vel á. Íslenskir nautakjötsframleiðendur hafa ekki náð að anna eftirspurn og kaupmenn segja það ástæðun þess að neytendur greiða nú hærra verð fyrir nautakjöt. Í Bónus hefur kílóið af nautahakki farið upp í 1300 krónur, á sama tíma og Færeyingar geta keypt nautalundir á 400 krónur kílóið í sömu verslun í Færeyjum. En það eru Suður-Amerískar nautalundir sem ekki verða á boðstólum í íslenskum verlslunum í bráð af orðum landbúnaðarráðherra að dæma. Það sem af er þessu ári hafa rúm nítján tonn af nautakjöti þó verið flutt inn frá Danmörku, Hollandi og Nýja Sjálandi og Bandaríkjunum. Heilbrigðiseftirlitið gerir þá kröfu að innflutt kjöt sé merkt framleiðslulandinu í bak og fyrir, enda á neytandi skýlausa kröfu á því að vita hvað hann leggur sér til munns. Hins vegar er það svo að megnið af innfluttu nautakjöti er selt á veitingastöðum án þess að það sé tilgreint á matseðli hvaðan það kemur. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×