Erlent

Ekki vitað um manntjón

Þúsundir íbúa Comoros-eyja flýðu heimili sín í dag þegar eldgos hófst á stærstu eyjunni. Öllu flugi til landsins hefur verið hætt. Yfirvöld á Grand Comoros, sem er stærst eyjanna þriggja, segja að um tíu þúsund manns hafi flúið heimili sín þegar fjallið Karthala byrjaði að gjósa. Ekki er vitað til þess að neitt manntjón hafi orðið. Fyrst í dag spjó fjallið eldi og eimyrju hátt til himins en nú flæðir glóandi hraun niður hlíðar þess og ógnar bæjum í nágrenninu. Comoros-eyjar eru á Indlanshafi og íbúar þar eru um 700 þúsund talsins. Eyjarnar fengu sjálfstæði frá Frökkum árið 1975. Eyjarnar eru með fátækustu löndum í heiminum. Þar eru litlar náttúrulegar auðlindir og menntun ekki mikil. Eldgos eru þar tíð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×