Erlent

Sérkennileg uppákoma

Svo virðist sem gíslatakan í smábænum Madain í Írak hafi verið orðum ofaukin. Íraskar öryggissveitir réðust inn í bæinn í gærmorgun en mættu engri mótspyrnu og fundu enga gísla. Í staðinn hittu þeir fyrir íbúa bæjarins sem inntu sín daglegu störf af hendi í friði og spekt. Á föstudaginn var greint frá því að uppreisnarmenn úr hópi súnnía hefðu handsamað tugi sjía í Madain og hótað að drepa þá ef trúbræður þeirra í bænum hefðu sig ekki á brott. Talsmenn súnnía drógu hins vegar fregnirnar mjög í efa en engu að síður ákváðu stjórnvöld að senda fjölmennt herlið á vettvang í gærmorgun. Naut það aðstoðar bandarískra flugsveita. Hvorki fundust gíslar né uppreisnarmenn og hallast menn nú að því að atburðurinn hafi aldrei átt sér stað. Hins vegar fannst talsvert af sprengiefnum og vopnum sem talið er að skæruliðar hafi átt. Engin skýring hefur fengist á þessum misskilningi en sumir stjórnmálaskýrendur telja að með uppákomunni hafi valdamenn úr röðum sjía viljað sýna að þeir hefðu stjórn á landinu og tækju hryðjuverkamenn föstum tökum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×