Innlent

Fischer lentur í Reykjavík

Einkaflugvél lenti nú rétt áðan á Reykjavíkurflugvelli með Bobby Fischer og föruneyti og tók fjöldi fólks á móti honum, bæði fjölmiðlafólk og velunnarar. Með Fischer í vélinni komu Sæmundur Pálsson vinur hans, unnusta hans, Miyoko Watai, Páll Magnússon, fréttastjóri Stöðvar 2, og heimildarmyndargerðarmenn. Bobby Fischer var sleppt úr fangelsi í Japan fyrir rúmum sólarhring en þar hafði hann dúsað í tæpa níu mánuði. Fischer flaug rakleiðis frá Japan til Kastrup í Kaupmannahöfn. Frá Kaupmannahöfn átti að halda hingað til lands með einkaflugvél en sökum þoku á Kastrup gat vélin ekki lent þar. Því varð að selflytja Fischer og föruneyti hans til Malmö í Svíþjóð þaðan sem fljúga átti. Það var hins vegar heldur ekki hægt og því var gripið til þess ráðs að fljúga frá Kristianstad sem einnig er í Svíþjóð. Og Bobby Fischer ætlar sér að vera á Íslandi. Ekki árið um kring alltaf en mikið. Fischer sagðist mjög þakklátur Íslendingum. Hann sagðist ekki hafa ætlað að trana sér fram heldur aðeins viljað losna úr fangelsi. Ef Íslendingar yrðu þreyttir á sér gætu þeir alltaf svipt hann ríkisborgararétti.
MYND/AP
MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×