Innlent

Markús lofaði Jóni lóð í Kringlunni

Jón Ólafsson hefur látið að því liggja að Davíð Oddsson hafi haft þau áhrif á Markús Örn að hann fékk ekki umrædda lóð í Kringlunni.
Jón Ólafsson hefur látið að því liggja að Davíð Oddsson hafi haft þau áhrif á Markús Örn að hann fékk ekki umrædda lóð í Kringlunni.

"Jón vék að því í samtali við mig hvort Davíð Oddsson hafi komið nálægt málinu," segir Markús Örn Antonsson, sendiherra í Kanada. Jón Ólafsson athafnamaður hafði fengið vilyrði Markúsar Arnar Antonssonar, þá borgarstjóra, til þess að reisa kvikmyndahús á lóð við hlið Verslunarskólans í Kringlunni, árið 1992.

Jón hefur sagst hafa heimildir fyrir því að Davíð Oddson, þá forsætisráðherra, hafi komið að málinu og tjáð Markúsi Erni vanþóknun sína á þeim gjörningi að Jón ætti að fá lóð undir kvikmyndahús í Kringlunni. Þessu til staðfestingar bendir Jón á að bréf frá Markúsi til Þorvarðar Elíassonar, skólastjóra í Verslunarskólanum, um málið sé týnt jafnvel þótt bókun sé til um tilvist bréfsins hjá skjalasafni Reykjavíkurborgar.

"Strax í kjölfar útgáfu Jónsbókar leituðum við aftur að bréfinu, því okkur þótti náttúrulega ákaflega miður að þetta skyldi ekki finnast, og þá loks fundum við bréfið," segir Halla María Árnadóttir, forstöðumaður skjalasafns Ráðuhússins.

Í bréfi Markúsar til Þorvarðar segir Marskús að hann "...vilji beina því til forráðamanna Verslunarskólans að nýta eftir því sem kostur er þá vinnu sem lögð var í undirbúning vegna fyrirhugaðs kvikmyndahúss. Að því væri örugglega hagræði."

Markús segir að ekki hafi verið um neitt samráð milli sín og Davíðs um þessi lóðamál. "Þegar á hólminn var komið var ekkert sem benti til þess að Verslunarskólinn hygðist eiga þetta samstarf við Jón um verkefnið. Þetta staðfestist aldrei og Verslunarskólinn sótti æ fastar að fá þessa lóð undir starfsemi skólans," segir Markús. Hann bendir á að mikill stuðningur hafi verið við þá hugmynd að Verslunarskólinn fengi lóðina enda hafi stjórn borgarinnar talið sig hafa ríkum skyldum að gegna við menntastofnun sem þegar hafði komið sér fyrir á svæðinu.

"Skömmu eftir þetta sá ég Jón á mynd með Davíð Oddssyni og fleiri forystumönnum Sjálfstæðisflokksins þegar Jón gaf út geisladisk fyrir flokkinn. Ég fékk ekki betur séð en að vel færi á með þeim félögum við þetta hátíðlega tækifæri," bætir Markús við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×