Innlent

Á þriðja tug nýrra fyrirtækja

Á þriðja tug nýrra iðnaðar- og þjónustufyrirtækja hafa hafið starfsemi á Reyðarfirði frá því að tilkynnt var um álversframkvæmdir. Uppbyggingin kallar á milljarðafjárfestingar sveitarfélagsins en bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir að Reyðarfjörður verði miðpunktur Austurlands. Fyrstu áhrif ákvörðunar um álver birtust í kauptúninu á Reyðarfirði þegar ýmis iðnaðar- og þjónustufyrirtæki hófu að koma sér fyrir, eins og steypustöð og byggingavöruverslanir. Fyrirtæki sem voru þegar á staðnum, eins og flutningsaðilar og olíufélög, brugðust við með því að treysta aðstöðu sína en þarna í þessu 700 manna samfélagi voru fyrir þrjár bensínstöðvar. Þarna eru nú einnig þrír bankar; Íslandsbanki hefur bæst við en fyrir voru Sparisjóðurinn og Landsbankinn sem flutti í nýtt húsnæði, fór inn í verslunarmiðstöðina Molann. Hún er sennilega sýnilegasta dæmið um nýsköpunina í kauptúninu. Reyðfirðingar hafa þar fengið lágvöruverslun, apótek, tískuvöruverslun, íþróttabúð og áfengisverslun. Veitingahús, kaffihús, gistihús og mötuneyti hafa risið upp, einnig verkfræðistofur og verktakar. Samhliða hefur sveitarfélagið ráðist í miklar framkvæmdir. Guðmundur Njarnason bæjarstjóri segir að á árunum 2003-2007 verði fjárfest fyrir um 3,5 milljarða, t.d. í skólum, hitaveitu og gatnagerð. Þá eru ónefnd fyrirtækin sem eingöngu reisa álverið; þar er langstærst verktakafyrirtækið Bechtel en auk þess eru þarna t.a.m. Suðurverk, Héraðsverk og Ístak. Háhýsi rísa í þorpinu og þegar álversframkvæmdunum lýkur segir bæjarstjórinn að komið verði myndarlegt bæjarfélag.  „Reyðarfjörður verður heimsborg eftir einhvern tíma þó hún verði ekki fjölmenn. Svo þegar göngin koma suður á Fáskrúðsfjörð þá er Reyðarfjörður auðvitað miðpunkturinn hér á Austurlandi,“ segir Guðmundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×