Innlent

Flestir prúðir um helgina

Flestir Íslendingar gengu hægt um gleðinnar dyr um helgina. Engin banaslys urðu, engin nauðgun kærð, fíkniefnamál reyndust færri en venjulega og innbrot tiltölulega fá. Töluverður erill var hjá Lögreglunni í Reykjavík um helgina en þar stóð fólki meðal annars til boða innihátíðin Innipúkinn. Mikið var um ölvun í miðbænum og mörg fíkniefnamál komu upp en flest þeirra voru minniháttar og fundust við eftirlit lögreglu á götum borgarinnar. Átta innbrot voru tilkynnt í bíla en í sumum tilvikum var erfitt að greina hvort um var að ræða innbrot eða skemmdaverk. Fimm innbrot á heimili voru tilkynnt til lögreglunnar og eitt í fyrirtæki en sáralitlu var stolið. Þetta eru tiltölulega fá innbrot miðað við Verslunarmannahelgina í fyrra en þá voru þau 15 og má að sögn lögreglunnar líklega rekja þessa fækkun til aukins eftirlits lögreglunnar um helgina. Nú eru langflestir þjóðhátíðargestir komnir heim í heitt ból eftir viðburðarmikla helgi í Eyjum en Herjólfsdalurinn var eins og ruslahaugur þegar hátíðahöldunum lauk á sunnudaginn. Miðað við aðrar verslunarmannahelgar gekk þessi frekar vel fyrir sig, þó nokkur fíkniefnamál komu upp víðs vegar um land en flestöll minniháttar. Ekkert banaslys varð og engin kynferðisbrotamál hafa verið kærð eftir helgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×