Innlent

Atvinnuleysi ekki verið minna síðan 2001

Í októbermánuði síðastliðnum voru skráðir fjörutíu og sex þúsund atvinnuleysisdagar á landinu öllu. Það jafngildir því að ríflega tvö þúsund manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum. Þessar tölur jafngilda eitt komma fjögur prósenta atvinnuleysi. Einnig hefur meðalfjölda atvinnulausra fækkað um 44% frá því í október 2004. Atvinnuleysi hefur ekki verið minna í einstökum mánuði síðan í október 2001. Atvinnuleysi minnkaði meðal kvenna en jókst lítils háttar meðal karla í október, mest á Norðurlandi eystra.

Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu er nú 1,4% af áætluðum mannafla og 1,5% á landsbyggðinni. Á landsbyggðinni er atvinnuleysið mest tvö komma fimm prósent á Norðurlandi eystra, en minnst er atvinnuleysið á Vesturlandi og Austurlandi eða núll komma sex prósent.

Höfuðborgarsvæðið er eina svæðið þar sem atvinnuleysi minnkaði. Það jókst á landsbyggðinni og þá aðallega á Norðurlandi eystra og á Suðurnesjum. Atvinnuleysi kvenna er minnst á Vesturlandi 1,1%, en mest á Vestfjörðum 3,8% og á Norðurlandi eystra 3,4%. Atvinnuleysi karla er mest á Norðurlandi eystra 1,9%, en minnst á Vesturlandi 0,2%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×