Innlent

Mannbjörg á Patreksfjarðarflóa

Mannbjörg varð þegar kviknaði í fiskibátnum Hrund BA í nótt. Skipstjóri fiskibátsins Seifs BA tilkynnti stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og vaktstöð siglinga þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í fimm að mikill reykur sæist á Patreksfjarðarflóa. Fáum mínútum síðar bárust upplýsingar frá fiskibátnum Ljúfi um logandi bát í norðvesturátt. Síðar sást neyðarflugeldur á lofti yfir staðnum. Nálægum bátum var þegar beint að staðnum. Rúmum tíu mínútum eftir að tilkynningin barst datt Hrund frá Patreksfirði út úr sjálfvirku tilkynningarskyldunni, um 37 sjómílur norðvestur af Patreksfirði. Björgunarsveitarbátar frá Ísafirði og Patreksfirði voru kallaðir út. Að liðnum tíu mínútum í viðbót lét skipstjóri fiskibátsins Ljúfs vita að eina skipverja Hrundar hefði verið bjargað um borð en allþrekuðum. Var siglt með hann til Patreksfjarðar og er hann kominn til síns heima. Skipstjóri Kríu hafði næst samband og sagði að Hrund væri alelda en björgunarbáturinn væri á floti við flakið og hann yrði tekinn að landi. Mótorbáturinn Hrund er trefjaplastbátur, smíðaður í Hafnarfirði 1995, og er 7,5 brúttólestir að stærð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×