Innlent

Aðalmeðferð í máli GT verktaka

> Aðalmeðferð var í tveimur málum sem fjalla um atvinnuleyfi baltneskra starfsmanna hér á landi í Héraðsdómi Austurlands í gær. Önnur aðalmeðferðin var í máli Sýslumannsins á Seyðisfirði gegn Gísla G. Sveinbjörnssyni og GT verktökum en Gísli og GT verktakar eru ákærðir fyrir að hafa brotið lög um atvinnuréttindi útlendinga með því að fá menn frá Lettlandi og Litháen til starfa hér á landi án þess að þeir hefðu tilskilin leyfi. Vörnin byggðist meðal annars á því að þeir hefðu ekki starfað hjá GT verktökum heldur fyrirtækinu Vislandia í Lettlandi. GT verktakar hefðu aðeins keypt þjónustu af því fyrirtæki. Verjandi Gísla og GT verktaka er Marteinn Másson lögmaður. Dómari hefur þrjár vikur til að kveða upp dóminn og má því búast við honum í lok maí. Hin aðalmeðferðin var í máli sýslumannsins gegn erlendum starfsmönnum GT verktaka. Ákærðu eru fjórir en tveir eru farnir af landi brott og ekki hægt að ljúka málinu gegn þeim. Einn Letti og einn Lithái mættu fyrir dóminn ásamt verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hdl. Mennirnir eru ákærðir fyrir að brjóta gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga með því að starfa við akstur, viðhald og viðgerðir ökutækja fyrir Impregilo á Kárahnjúkum án þess að hafa atvinnuleyfi. Mennirnir neituðu sök. Verjandi byggði málsvörnina á því að mennirnir störfuðu tímabundið á Íslandi á grundvelli svokallaðra þjónustusamninga og því sé nóg að tilkynna þá inn í landið eins og gert var. Vinnuveitandi mannanna sé ekki GT verktakar heldur Vislandia í Lettlandi. Þá byggðist vörnin einnig á því að í lögum sé fyrirvari sem heimili borgurum nýju ESB-ríkjanna að dvelja hér og starfa án atvinnuleyfis í þrjá mánuði þótt það sé bannað í sex mánuði. Farbann mannanna rennur út 13. maí og má því búast við dómi fyrir þann tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×