Innlent

Fornminjar og margmiðlun

Elsta mannvirki Íslandssögunnar verður til sýnis næsta vor þegar búið verður að forverja mannvistarleifarnar við Aðalstræti. Landnámsbærinn kom í ljós við byggingaframkvæmdir á svæðinu við Aðalstræti árið 2001 og voru rústir bæjarins varðar á meðan framkvæmdum stóð. Hreinsunarstarf er nú hafið að nýju og fjöldi fornleifafræðinga að störfum í landnámsbænum. Með nýrri aðferð verður nú hægt að forverja moldarveggina en það hefur ekki verið gert áður. Hjörleifur Stefánsson segir að með forvörninni geti torfveggirnir varðveist um aldir og ævi.  Þegar sýningarskálinn verður opnaður eftir ár gefst almenningi kostur á að líta elsta vegg á Íslandi en talið er að hann sé frá því fyrir árið 870 samkvæmt mælingum á gjóskulögum. Og nýjustu tækni verður blandað saman við fornminjarnar þar sem almenningur getur fræðst um landnámsbæinn með hjálp margmiðlunartækninnar. Hjörleifur segir rústina og fornleifarnar aðalatriðið en auk þess verði sýning sem geri grein fyrir því sem lesið hafi verið úr rústinni og aflað með rannsóknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×