Erlent

Írakar bjartsýnir á framtíðina

Írakar bjartsýnir og telja sinn hag góðan
Írakar bjartsýnir og telja sinn hag góðan

Viðhorfskönnun breska ríkisútvarpsins BBC sýnir að Írakar eru upp til hópa bjartsýnir á eigin hag, þrátt fyrir ofbeldið í landinu. Sautján hundruð Írakar tóku þátt í könnuninni og þar kom meðal annars fram að meirihluti spurðra vill sameinað Írak sem stýrt er af öflugri sambandsstjórn.

Forgangsatriði að þeirra mati er að öryggi komist sem fyrst á í landinu og erlent herlið haldi heim. 71 prósent taldi hag sinn vera annað hvort góðan eða mjög góðan og 64 prósent bjuggust við að hagur þeirra myndi vænkast enn frekar á næsta ári. Tólf prósent töldu aftur á móti að senn færi að halla undan fæti á ný.

Þegar kemur að almennu ástandi í landinu kemur hins vegar annað hljóð í strokkinn. 53 prósent telja að það sé slæmt en 44 prósent segja það gott. 69 prósent búast þó við að betri tíð sé í vændum, jafnvel strax á næsta ári. Íbúar Bagdad og norður- og suðurhluta landsins voru bjartsýnni í þessum efnum en aðrir landsmenn. 57 prósent þeirra sem voru spurðir segja að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningarnar á fimmtudag sé að koma á öryggi í landinu en tíu prósent vilja að bandarískar hersveitir verði sendar heim á leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×