Innlent

Nefndarmaður sat báðum megin borðs

Tryggvi Felixson
framkvæmdastjóri Landverndar, sendi kæru til félagsmálaráðuneytisins vegna svæðis á náttúruminjaskrá. Úrskurður liggur nú fyrir.
Tryggvi Felixson framkvæmdastjóri Landverndar, sendi kæru til félagsmálaráðuneytisins vegna svæðis á náttúruminjaskrá. Úrskurður liggur nú fyrir.

Félagsmálaráðuneytið hefur úrskurðað að ekki sé hægt að staðhæfa að Jón Ottó Guðmundsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í skipulagsnefnd Garðabæjar, hafi verið vanhæfur til að taka þátt í breytingu á aðalskipulagi í Urriðaholti, landi í eigu styrktar- og líknarsjóðs Oddfellow­-reglunnar, í vor þó að hann sé virkur félagi í Oddfellow og hafi gegnt þar efstu embættum, meðal annars í umræddum sjóði.

Ráðuneytið segir jafnframt að hagsmunir reglunnar tengist afgreiðslu skipulagstillögunnar. Það sé hlutverk skipulagsnefndar að meta hvort seta mannsins í Oddfellow-reglunni og þátttaka hans í ákvörðunum skipulagsnefndar um Urriðaholt rekist á. Skipulagsnefndin hefði á fundi sínum átt að úrskurða um hæfi mannsins til að taka þátt í ákvörðuninni áður en hún var tekin.

Skipulagi í Urriðaholti var breytt með skömmum fyrirvara í vor þannig að bæjarvernd var felld niður og 27 hektara svæði, sem fram að þessu hafði notið bæjarverndar og verið skráð á náttúruminjaskrá, var breytt í þjónustusvæði.

Tryggvi Felixson, framkvæmdastjóri Landverndar, telur að afstaða Jóns Ottós hafi getað ráðið úrslitum í málinu en afgreiðsla málsins hafi mikil fjárhagsleg áhrif á styrktar- og líknarsjóðs Oddfellow-reglunnar.

Þetta kemur fram í kæru Tryggva til félagsmálaráðuneytisins. Þar kemur einnig fram að skipulagið hafi verið afgreitt í bæjarstjórn Garðabæjar tveimur dögum eftir fund skipulagsnefndar. Tryggvi telur því að bæjarstjórn hafi ætlað sér skamman tíma til að setja sig inn í þær efnislegu athugasemdir sem hafi komið fram og því hafi öll efnisleg umfjöllun um málið verið á forræði skipulagsnefndar ef marka megi fundargerð.

Í Urriðaholti er fyrirhugað að reisa byggingar fyrir sex til sjö stórverslanir, þar á meðal Ikea-verslun og stærstu byggingavöruverslun landsins, tólf þúsund fermetrar að stærð.

Talið er að samningar við Byko séu á lokastigi en áður hafði verið gert ráð fyrir að þýska byggingavöruverslunin Bauhaus yrði þarna með starfsemi sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×