Innlent

Beið í fimm tíma eftir hjálp

Reykvísk kona á áttræðisaldri beið í fimm klukkustundir í bíl sínum í Ártúnsbrekkunni í fyrrinótt eftir að aðstoð bærist. Það var ekki fyrr en strætisvagnabílstjóri gerði lögreglu viðvart að konunni barst hjálp.

"Ég sat þarna í fimm klukkustundir og var orðin nokkuð þjökuð," segir konan, Vigfúsína Thorarensen Clausen við Fréttablaðið í gær. Hún var þá óðum að jafna sig eftir nóttina. Vistin í bílnum var óneitanlega köld þar sem bíllinn var bensínlaus og biðin löng.

Vigfúsína segist hafa verið að koma úr heimsókn úr Mosfellsbæ. Hún hafi villst af leið og stoppað síðan í Ártúnsbrekkunni. Þar varð bíllinn bensínlaus, farsíminn hennar heima og ekki um annað að ræða en að bíða þess að aðstoð bærist.

"Þá bar þarna að mann sem spurði hvort væri allt í lagi hjá mér," segir Vigfúsína. "Ég sagði honum að ég þyrfti aðstoð og bað hann að hafa samband við lögregluna. Eitthvað hefur farið úrskeiðis því sú hjálp barst aldrei."

Fleiri vegfarendur stoppuðu hjá Vigfúsínu eftir þetta, en hún sagði þeim að hún væri búin að koma boðum um aðstoð áleiðis.

"Mér var orðið rosalega kalt," segir hún. "Ég var ekki manneskja til að fara út úr bílnum og ganga því ég er svo mikill bak­sjúklingur og geng við staf." Það var ekki fyrr en árvökull strætisvagnabílstjórinn tilkynnti um kyrrstæða bifreið í Ártúnsbrekkunni í gærmorgun að lögregla kom á staðinn.

"Það komu þarna tveir elskulegir lögregluþjónar, karl og kona, og óku mér heim," segir Vigfúsína. "Allt fór þetta vel að lokum og allt er gott sem endar vel. Hér eftir mun ég taka farsímann með mér þegar ég fer eitthvað því hann er óneitanlega mikið öryggistæki. Svona forláta verkfæri gerir ekkert gagn ef það er skilið eftir heima."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×