Innlent

Munurinn kemur á óvart

Skýrslan kynnt. Lántökukostnaður er hár og vextir mun hærri hér á landi en í flestum öðrum löndum Evrópu samkvæmt könnun Neytendasamtakanna.
Skýrslan kynnt. Lántökukostnaður er hár og vextir mun hærri hér á landi en í flestum öðrum löndum Evrópu samkvæmt könnun Neytendasamtakanna.

"Kostnaður allur við lántöku íbúðarlána hér á landi er meiri en gerist og gengur erlendis, en hve mikill hann er kemur mér á óvart," segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins. Neytendasamtökin kynntu í vikunni úttekt sína á lántökukostnaði vegna íbúðarkaupa hérlendis og í níu öðrum löndum Evrópu.

Kom þar fram skýr munur á kostnaði íslenskum neytendum í óhag. Sigurður Helgi segir svo margt óskiljanlegt við þá gjaldtöku sem hér fari fram.

"Lántökugjaldið til að mynda er eitthvað sem ég skil ekki. Þar er viðskiptavinurinn að ­greiða­­ sérstakt gjald fyrir að eiga viðskipti við lánastofnunina þegar það í raun ætti að vera öfugt. Þetta gjald er óréttlátt og fleinn í okkar holdi."

Sigurður segir að lengi hafi verið lýst yfir vilja til að fella burt stimpilgjöld en þau séu enn á sínum stað í dag og ekkert gerst. Einnig sé Ísland eina landið sem noti verðtryggingu og það séu leifar gamalla tíma og eigi að fella út. Sigurður segir að Húseigendafélagið muni á næstunni leita samstarfs við Neytendasamtökin og jafnvel umboðsmann neytenda um að knýja fram breytingar á stöðu mála sem augljóslega komi niður á íslenskum íbúðarkaupendum og kannski verst niður á unga fólkinu sem er að kaupa sína fyrstu eign.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×