Innlent

Fær úttektina ekki afhenta

Anna Kristín Gunnarsdóttir kveðst hafa ítrekað beðið um úttektina en án árangurs.
Anna Kristín Gunnarsdóttir kveðst hafa ítrekað beðið um úttektina en án árangurs.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, boðaði í apríl síðastliðnum úttekt á starfsemi Byggðastofnunar. Í september lagði Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fram fyrirspurn þar sem hún spurði hvað úttektinni liði, hvort niðurstöður lægju fyrir, hvernig ætti að nýta þær og hvort sú vinna hefði hafist.

Í síðustu viku svaraði Valgerður Önnu Kristínu og sagði að úttektin hefði verið gerð og lægi fyrir í iðnaðarráðuneytinu þar sem hún væri aðgengileg fyrir þingmenn.

"Síðan hafa starfsmenn þingsins reynt að nálgast þessa úttekt fyrir mína hönd í tvo daga en árangurslaust," segir Anna Kristín. "Mér var lofað að hún yrði send strax, en ekkert gerðist. Ég talaði við ritara ráðherra á föstudag og var lofað að úttektin yrði send rakleiðis. Heima beið mín sending frá ráðuneytinu en það var allt önnur skýrsla en ég hafði beðið um. Mér finnst þetta mál afar undarlegt."

Anna Kristín segir að á þessari skýrslu hafi átt að byggja nýja stefnumótun Byggðastofnunar og þótt sú vinna sé hafin er úttektin forsenda nýrrar stefnumótunar.

Ekki náðist í Valgerði Sverrisdóttur vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×