Innlent

Framsóknarflokkur í þéttbýlisvanda

Miðstjórn Framsóknarflokksins kemur saman til fundar í Kópavogi í dag, en hún er æðsta stórn flokksins milli flokksþinga.

Fundur miðstjórnar er haldinn í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Formaður flokksins varð forsætisráðherra fyrir rúmu ári. Tíminn hefur reynst honum og flokknum erfiður. Fylgið er lítið og hagkerfið við það að ofhitna. Störf tapast í sjávarútvegi og stjórnarflokkarnir ganga ekki í takt í mörgum málum. Úr því er að vísu lítið gert.

Í skoðanakönnunum að undanförnu hefur fylgi flokksins í Reykjavík mælst innan við fimm prósent, sem nægir ekki til þess að koma að einum fulltrúa í fimmtán manna borgarstjórn Reykjavíkur. Þeir sem best eru læsir á framsóknarmenn telja engu að síður fullvíst að þegar í kjörklefana kemur muni kjósendur skila flokknum að minnsta kosti sex til sjö prósenta fylgi í borginni. Margir flokksmenn telja fjarri lagi að þetta sé fullnægjandi og eru vísir til að kalla formanninn til ábyrgðar á miðstjórnarfundinum og krefjast breytinga.

Miðstjórnarfulltrúar af landsbyggðinni minna forystuna og ráðherra flokksins á að sjávarútvegsfyrirtæki um land allt eigi erfitt uppdráttar, meðal annars vegna ákvarðana sem flokksforystan hefur átt aðild að innan ríkisstjórnarinnar. Hágengi krónunnar ríður samkeppnis- og útflutningsgreinum á slig. Vel má vera að fleiri fyrirtæki láti undan síga á næstunni. Spurnir eru til að mynda af afar þungum rekstri í fiskvinnslu á Seyðisfirði. Vandinn sem að forsætisráðherranum steðjar - líkt og öðrum stjórnmálaleiðtogum - er að efnahagslífið og hagkerfið er óháðara vilja þeirra, ákvörðunum eða duttlungum en nokkru sinni fyrr. Halldór þarf engu að síður mjög líklega að sannfæra miðstjórn Framsóknarflokksins um það að stjórnvöld geti ekkert aðhafst meðan sjávarplássum blæðir út og störf tapast í sjávarútvegi.

Pattstaðan um RÚV

Framsóknarmenn virðast tómlátir um setningu nýrra laga um eignarhald á fjölmiðlum.

Öðru máli gegnir um málefni Ríkisútvarpsins. Þeir eru meðvitaðir um að pattstaða í málefnum RÚV er skaðvænleg stofnuninni. Stuðningur þeirra við stofnunina er óhaggaður. En þeir geta ekki fellt sig við áform sjálfstæðismanna - samstarfsflokksins - um að breyta RÚV í einkahlutafélag. Halldór Ásgrímsson, formaður flokksins, sagði í ræðu sinni á miðstjórnarfundi flokksins árið 2001 að draga ætti úr vægi stjórnmálaflokka í stjórn stofnunarinnar. "Þjóðin þarf á fjölmiðli að halda sem er óháður hverskonar sértækum hagsmunum," sagði formaðurinn og bætti við: "Um leið þurfi að gera stjórn stofnunarinnar ábyrga fyrir bæði rekstri og dagskrá en jafnframt þurfi að verða til farvegur fyrir álitamál um framkvæmd grundvallarhlutverks Ríkisútvarpsins," sagði Halldór orðrétt.

Flestir eru sammála um að rekstrarform og ýmsir þættir í skipulagi RÚV standi starfsemi stofnunarinnar fyrir þrifum á tímum glerharðrar samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Nýr útvarpsstjóri varð nýlega að sveigja af vegi regluverksins til að bíða ekki lægri hlut í samkeppni um hæft starfsfólk.

Eftir því sem næst verður komist gæti Framsóknarflokknum hugnast að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag með sérstökum ákvæðum eða skyldum sem tilteknar yrðu um hlutafélög í eigu ríkisins. Benda má á að til dæmis Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Íslandspóstur eru hlutafélög í eigu ríkisins og virðast njóta kosta rekstrarformsins. Ef af þessu á að verða þarf líklega að skapa lagalegt afbrigði fyrir hlutafélög í eigu ríkisins. Fullyrt er að forysta Framsóknarflokksins vilji kanna þessa leið sérstaklega og telji jafnvel að um þetta gæti náðst samstaða allra flokka nema Vinstri grænna.

Íbúðalánasjóður

Fastlega er gert ráð fyrir því að rædd verði málefni Íbúðalánasjóðs, en staða hans hefur gerbreyst á undanförnum misserum samfara vaxandi útlánum bankanna til íbúðakaupa.

Þeirri hugmynd hefur til dæmis verið hreyft að breyta Íbúðalánasjóði í eins konar heildsölubanka á fasteignalánamarkaði. Málefni Íbúðalánasjóðs eru á hendi Árna Magnússonar félagsmálaráðherra og víst má telja að á miðstjórnarfundinum vilji menn ræða stefnu og afstöðu Framsóknarflokksins í þessu efni. Eftir því sem næst verður komist er flokksforystan fremur hægfara í málefnum Íbúðalánasjóðs og hefur lítinn áhuga á að selja bönkunum starfsemina eða breyta henni með róttækum hætti á skömmum tíma. Líklegt verður að telja að stjórnarflokkarnir eigi eftir að takast á um framtíð Íbúðalánasjóðs fyrir þingkosningarnar vorið 2007.

Ímynd Framsóknarflokksins
@Mynd -FoMed 6,5p CP:Halldór Ásgrímsson formaður framsóknarflokksins Sumir telja sig sjá merki þess að flokkurinn sé kerfisbundið að breyta ímynd sinni.

Undanfarið hálft ár eða svo hafa forystumenn Framsóknarflokksins hugað að ímynd og stöðu flokksins. Markmiðið er að öðlast meira fylgi, verða sýnilegri, skapa betri ásýnd, verða nútímalegri og skapa meira aðdráttarafl fyrir ungt fólk.

Tillögur um að opinbera fjárhag og hagsmunatengsl sérhvers þingmanns Framsóknarflokksins seint á síðastliðnu þingi var liður í þessari viðleitni.

Starfshópur á vegum þingflokksins reynir að svara spurningum um stöðu Framsóknarflokksins og hver hún verði árið 2010. Hópurinn endurskoðar hugmyndafræði og mótar tillögur.

Þegar nemandi fær lága einkunn í námsgrein aukast líkur á því að hann hækki sig á næsta prófi. Segja má að Framsóknarflokkurinn hafi á undanförnum mánuðum og misserum verið við það að falla á prófi. Ef koma á í veg fyrir að illa fari í næsta prófi þurfa framsóknarmenn, eins og aðrir, að læra heima og nema betur hjartslátt og kenndir þeirra sem greiða stjórnmálaflokkum atkvæði sitt í kosningum á höfuðborgarsvæðinu og þar í grennd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×