Innlent

Fékk sextán ára dóm fyrir hnífstunguárás

Sextán ár bak við lás og slá. Phu Tién Nguyén hlaut þungan dóm fyrir morðið á Phong Van Vu enda þótti dómnum að mestu sannað að um ásetning hefði verið að ræða af hans hálfu.
Sextán ár bak við lás og slá. Phu Tién Nguyén hlaut þungan dóm fyrir morðið á Phong Van Vu enda þótti dómnum að mestu sannað að um ásetning hefði verið að ræða af hans hálfu.

Héraðsdómur Reykjaness fann í gær Phu Tién Nguyén sekan um manndráp og hættulega líkamsárás að auki en hann var valdur að dauða Phong Van Vu í blokkaríbúð að Hlíðarhjalla í Kópavogi í maí síðastliðnum. Hlaut hann sextán ára fangelsisdóm og var dæmdur til að greiða rúmar tólf milljónir króna í skaðabætur auk alls sakarkostnaðar.

Atvikið átti sér stað að kvöldi hvítasunnudags 15. maí síðast­liðinn en þá réðst Nguyén að Van Vu í veislu eftir að hafa deilt um hríð hvor þeirra ætti að sýna hinum meiri virðingu vegna aldurs. Hófust átök milli mannanna þegar á leið sem endaði með því að Nguyén greip hníf og bar til Van Vu. Hlaut hann djúp stungusár í brjóstkassann báðum megin auk annarra áverka á handlegg og andliti. Bæði stungusárin í brjóstkassa mannsins voru lífshættuleg en stungan hægra megin dró hann hratt til dauða þar sem sárið gekk inn í lungnaslagæð. Var hann látinn þegar lögregla og sjúkralið kom að.

Ákærði játaði strax verknað sinn fyrir lögreglu en bar við sjálfsvörn sem dómurinn féllst ekki á meðal annars vegna þess að morðvopnið hafði hann haft með sér í veisluna umrætt kvöld. Þótti allur framburður hans óljós og ruglingslegur að öðru leyti auk þess sem hann var mjög ölvaður þegar lögregla handtók hann síðar kvöldið örlagaríka.

Hlaut Nguyén einnig dóm fyrir líkamsárás en hann lagði til annars manns sem reyndi að stöðva átökin með þeim afleiðingum að sá hlaut slæmt stungusár við mjöðm.

Einn dómari við réttinn skilaði séráliti þar sem hann lýsir sig í meginatriðum sammála dómnum en telur þrettán ára fangelsisdóm nægan þar sem Nguyén hafi ekki gripið til hnífsins fyrr en átök höfðu staðið yfir um hríð milli mannanna tveggja. Auk þess hafi ákærði ekki haft orð á sér fyrir ofbeldishneigð né haft haturs- eða heiftarhug til fórnarlambsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×