Innlent

Best að aka á jöfnum hraða

Mörg ráð eru til að spara bensín. Sum ráðin fara ekki einungis vel með fjárhaginn, heldur eru einnig betri fyrir umhverfið og spara mengun. Til að spara bensínið er best að aka með jöfnum hraða. Best er að halda sig við hámarkshraða, þar sem hraðatakmarkanir eru miðaðar við eðli götunnar og því er best að fara bara eftir þeim.

Í innanbæjarakstri miðast stillingar umferðarljósa við hraðatakmarkanir og með því að aka á jöfnum hraða er því hægt að aka alltaf inn á gatnamót á grænu ljósi. Með því að aka varlega sparast einnig bensín. Skyndileg hröðun og snögg stopp auka eyðsluna. Með því að þurfa alltaf að taka aftur af stað eftir að hafa stoppað á rauðu ljósi eykur því bensíneyðslu.

Þá er ágætt að velja réttan tíma til að skutlast um bæinn í ýmsum útréttingum. Á háannatíma er oft mikil umferð sem krefst þess að ökumaður stoppi oft. Með því að sinna mörgum erindum í sömu ferðinni er einnig hægt að eyða minna af bensíni en með því að vera oft að skjótast. Þegar verið er að skjótast inn í búð eða með börnin á leikskóla er best að drepa á bílnum og hafa hann ekki í lausagangi.

Með þessu sparnaðarráði er líka komið í veg fyrir að andrúmsloftið sé mengað fyrir öðrum gangandi vegfarendum. Léttari bílar eru auðveldari í akstri og eyða minna. Því er gott að fjarlægja óþarfa hluti úr bílnum. Bílar með opna glugga krefjast aukinnar bensínnotkunnar. Því er betra að skrúfa ekki niður rúðuna og setja frekar loftkælinguna á.

Reglulegt viðhald á bílnum getur verið orkusparandi. Loftlaus dekk og illa stillt reyna meira á vélina og því eyðir bíllinn meira bensíni. Bilaðar vélar og illa stilltar geta einnig eytt meira bensíni en nauðsyn krefur. Því er gott að halda vélinni við og skipta um allt þegar á að skipta.

Að lokum er gott að hafa í huga að mikið bensín getur farið í margar mjög stuttar bílferðir. Því er oft betra að velta því fyrir sér hvort bíllinn sé nauðsynlegur eða hvort hægt sé að ganga í staðinn, sem er bæði hress­andi og góð líkamsrækt í senn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×