Innlent

Tvískattlagt á leið til Reykjavíkur

Júlíus Vifill Ingvarsson segir að borgarbúar eigi að ákveða hvaða leið verður farin yfir sundið.
Júlíus Vifill Ingvarsson segir að borgarbúar eigi að ákveða hvaða leið verður farin yfir sundið.

Umræðan um lagningu Sundabrautar hefur að undanförnu legið nokkuð í skugga flugvallarumræðunnar. Þrjár lausnir hafa verið kannaðar á fyrsta áfanganum sem er þverun Kleppsvíkur frá Gufuneshöfða. Þær eru í fyrsta lagi hábrú sem kæmi niður við Sæbraut, í öðru lagi göng undir sundið og í þriðja lagi innri leið, nær Elliðaárdal, með lábrú.

Ríkisstjórnin ákvað í byrjun september að leggja 8 milljarða af söluandvirði Símans til verksins á árunum 2007 til 2010. Í framhaldi af því var ákveðið í borgarstjórn að fara innri leið sem jafnframt er ódýrust. Sú ákvörðun er þó háð samþykki umhverfisráðherra og íbúa í grennd við framkvæmdasvæðið. Seinni áfanginn er svo þverun Kollafjarðar með brú en þar er deilt um hvort viðunandi sé að fjármagna þá framkvæmd með veggjöldum.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er ekki sáttur við þessa ákvörðun borgarstjórnar og segir að skynsamlegast væri að leggja þessar þrjár lausnir í dóm borgarbúa.

Dæmigert mál til að leysa með íbúalýðræði

"Seltirningar fóru þá leið snemmsumars þegar taka þurfti mjög mikilvægar skipulagslegar ákvarðanir um framtíð miðbæjarins að leggja tvo kosti í dóm kjósenda og láta svo bæjarstjórn vera bundna af þeirri niðurstöðu sem íbúarnir kæmust að. Fyrir þær kosningar var allt útlit fyrir að mikið fjaðrafok yrði vegna málsins en síðan að íbúar hafa kveðið upp sinn dóm er málið fallið í ljúfa löð og allir virðast sætta sig við mat fólksins," segir Júlíus Vífill.

"Það væri hrein vantrú á borgarbúa að halda að þeir geti ekki komist að skynsamlegri niðurstöðu í þessu máli. Svo er það nú einu sinni þannig að lýðræðið er ekkert stabílt fyrirkomulag sem engum breytingum tekur, það er í þróun eins og allt annað og þróunin er í þá átt að í mikilvægum málum sem þessum eigi fólkið sjálft að ráða."

Þrír kostir vænstir

Þessar þrjár lausnir sem settar voru fram í upphafi hafa ekki verið fyrirferðarmiklar í almennri umræðu.

Nokkrir hafa þó talað um það hve tilkomumikil hábrúin yrði en hún er nær helmingi dýrari en lágbrúin enda yrði hún að vera 48 metra há svo hún hamli ekki skipaumferð. Lágbrúin gerir ráð fyrir því að eyja sé mynduð úti á miðju sundi en síðan brúað til beggja stranda og þykir mörgum sú lausn nokkuð rúmfrek.

Tvær útfærslur á göngum hafa verið kannaðar en það eru jarðgöng, líkt og Hvalfjarðargöng, og svo botngöng sem lægju á sjávarbotni. Sú útfærsla er sú dýrasta af öllum en áætlað er að hún myndi kosta rúmlega 14 milljarða.

Að hækka Vesturlandsskattinn

Jóhann Ársælsson, sem og fleiri þingmenn, hafa bent á það að Vestfirðingum, Vest- og Norðlendingum myndi reynast dýr ferðin í höfuðstaðinn ef ætlunin yrði að fjármagna seinni áfanga Sundabrautar, brú yfir Kollafjörð, með veggjaldi. Þeir sem koma að vestan þyrftu þá tvisvar að grípa til buddunnar á leiðinni frá Borgarnesi til Reykjavíkur, þar sem ekki er útlit fyrir að veggjöld í Hvalfjarðargöng verði lögð af næstu tuttugu árin.

"Ég hef lagt fram fyrirspurn til samgönguráðherra um það hvernig hann hyggist fjármagna þetta en mér þykir það alveg út í hött að fólki frá vissum landshlutum reyndist dýrt að fara til Reykjavíkur en öðrum ekki," segir Jóhann og minnir á að engin veggjöld hindra menn sem koma að sunnan og austan.

Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs, segir að í ljósi þess að veggjöld í Hvalfjarðargöng séu stundum kölluð Vesturlandsskattur, sé það varhugavert að höggva tvisvar í sama knérunn með því að leggja enn meiri veggjöld á leiðina til Reykjavíkur frá Vesturlandi.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur enn engin svör veitt við fyrirspurn Jóhanns um veggjöld á Sundabraut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×