Skoðun

Vér mótmælum allar

Lögfræðinefnd vegna þjóðaratkvæðagreiðslu - Herdís Helgadóttir Öllum íslenskum konum er nú misboðið enn og aftur vegna skipunar þeirrar nefndar sem ráða skal hvernig komandi þjóðaratkvæðagreiðsu skal háttað.Í nefndinni sitja fjórir karlmenn og til aðstoðar sá fimmti, aðstoðarmaður forsætisráðherra. Hvenær ætla ráðamenn okkar í stjórnmálum að viðurkenna konur, helming þjóðarinnar sem kjósendur með rétt og menntun til að taka þátt í mikilvægum ákvarðanatökum sem þessari og öðrum? Margar konur eru vel lærðar í lögum, stjórnmálum, mannréttindamálum ofl., sumar jafnvel betur að sér í ýmsum málaflokkum en karlar, sjá t.d. dr. Herdísi Þorgeirsdóttur og margar aðrar. Þær eru fyllilega jafnokar karla þegar kemur að því að leysa úr þeirri flækju sem hæstvirtir forsætisráðherra og utanríkisráðherra vorir hafa komið sér í með því að hafa engin samráð við einn eða neinn þegar þeir taka afdrifaríkar ákvarðanir fyrir þjóðina alla eins og stuðningur þeirra tveggja við innrásina í Írak ber vott um. Við erum stolt af því að vera herlaus þjóð og friðsöm og teljum mörg að sumar þjóðir öfundi okkur af því og því lýðræði sem við búum þó við. Þrátt fyrir þá misbresti sem á því verður þegar ráðherrar horfa framhjá niðurstöðum opinberra stofnana sem gegna því hlutverki að gæta réttlætis eins og Siv Friðleifsdóttir gerði þegar hún undirritaði samninginn um Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Nú er komið nóg. Við verðum allar að sameinast í þessari baráttu fyrir viðurkenningu á rétti okkar sem í raun er kominn í orði en alls ekki á borði eins og dæmin sanna. Ég skora á allar íslenskar konur að láta til sín heyra svo rödd mín verði ekki hrópandans í eyðimörkinni.



Skoðun

Sjá meira


×