Sport

Slagsmál á Valsmóti

KR og ÍR léku til úrslita á hraðmóti Vals í körfubolta í gærkvöldi. Leikurinn leystist á köflum upp í tóma þvælu og létu ÍR-ingar skapið hlaupa með sig í gönur. KR byrjaði betur og náði fljótlega yfirhöndinni í fyrsta leikhluta. ÍR-ingar voru aldrei langt undan og náðu góðum spretti undir lok fyrri hálfsleiks. Staðan í leikhléi var 29-28 fyrir KR. Í þriðja fjórðung skoraði KR 15 stig gegn 8 stigum ÍR-inga og lagði það grunninn að sigrinum. Í lokafjórðungnum létu ÍR-ingar mótlætið fara í taugarnar á sér og voru þeir Ómar Sævarsson og Ásgeir Hlöðversson reknir af velli. Allir stóru menn ÍR fengu allir 5 villur og eina tæknivillu á mann. KR náði 16 stiga forskoti um miðjan leikhlutann og voru lokatölur 67-53. Stigahæstir hjá ÍR voru Ólafur Sigurðsson og Ólafur Þórisson en Lárus Jónsson fór fyrir liði KR-inga með 16 stig og gaf að auki fimm stoðsendingar. Herbert Arnarson, þjálfari KR-inga, var ánægður með leik sinna manna. "Leikurinn leystist upp í töluverðan æsing á tímabili og sérstaklega síðustu 5 mínúturnar fyrir hlé," sagði Herbert. "ÍR-ingar lögðu sig meira fram og uppskáru eftir því. Við vildum sýna það að við líðum ekki að hitt liðið leggi sig meira fram en við. Við komum tilbaka og héldum fengnum hlut eftir það". Mótið gefur KR-ingum byr undir báða vængi enda nýjir leikmenn að standa sig með prýði. Herbert hefur þó allan varann á því. "Þetta mót er ekki alveg að marka enda landsliðsmenn ekki með og sömuleiðis fáir erlendir leikmenn. En þetta er ágætt til að vita hvar við stöndum og kærkomin úrslit fyrir okkur. Ég held að fáir reikni með því að KR og ÍR leiki til úrslita í vor enda mótið ekki partur af alvörunni sem byrjar í október".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×