Sport

Grikkir fóru í úrslitaleikinn á EM

Grikkir eru komnir í úrslitaleik Evrópumótsins í Portúgal eftir 1-0 sigur á Tékkum í framlengdum undanúrslitaleik liðanna. Grikkir skoruðu sigurmarkið á lokasekúndum fyrri hluta framlengingarinnar. Lokaleikur keppninnar er því sá sami og opnunarleikurinn og Portúgal og Grikklands mætast því öðru sinni í keppninni á sunnudaginn. „Ævintýrið okkar heldur áfram og það er ótrúlegt hvað mínir menn afrekuðu í þessum leik. Þetta er sannarlega kraftaverk,“ sagði Otto Rehagel, þjálfari Grikkja. „Tékkar hafa yfir meiri tækni að ráða en ástríðan og viljinn var okkar megin. Það er sama hvað gerist í framhaldinu, við erum sannir sigurvegarar þessarar keppni,“ bætti sigurglaður Otto við í leikslok. Grikkir gerðu að því er virtist hið ómögulega í annað sinn á sex dögum þegar þeir slógu út sigurstranglegasta liðið í Evrópukeppninni. Frakkar duttu út fyrir þeim í átta liða úrslitunum og í gær fóru Tékkar sömu leið. Aðeins tvö mörk voru skoruð í þessum tveimur leikjum og bæði tvö af Grikkjum. Grikkir spila því við heimamenn í Portúgal í úrslitaleik keppninnar. Sigurmarkið skoraði varnarmaðurinn Traiano Dellas með skalla eftir hornspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks framlengingar eftir að bæði liðin höfðu verið lánlaus upp við markið í 115 mínútur. Seinheppnir Tékkar fengu síðan engan tíma til að svara þessu marki því um leið og þeir hófu leikinn eftir markið flautaði Pierluigi Collina til loka leiksins. Tékkar lágu sem hráviði út um allan völl. Fyrsta silfurmark sögunnar var því sögulegt því nú er ljóst að ný þjóð fær nafn sitt á bikarinn því Portúgalir eða Grikkir hafa aldrei unnið titil á stórmóti. Það var þó eins og um gullmark væri að ræða því Tékkar gátu ekki svarað – því leikurinn var búinn.  „Það sem við gerðum í kvöld verður aldrei leikið eftir. Við eigum skilið að vera í úrslitaleiknum því við höfum skipulagt og gott lið. Guð gaf okkur sigurinn,“ sagði Traianos Dellas sem skoraði sigurmarkið. Tékkar byrjuðu vel og strax á þriðju mínútur skaut Tomas Rosicky í slána á marki Grikkja en Tékkar fundu ekki leiðina fram hjá skipulagðri vörn Grikkja. Tékkar urðu fyrir miklu áfalli í fyrri hálfleik þegar fyrirliðinn Pavel Nedved varð að yfirgefa völlinn vegna hnémeiðsla. En það var ekki bara brotthvarf fyrirliðans sem spillti fyrir Tékkum sem náðu sér aldrei á strik gegn varnarsinnuðu liði Grikkja. Færin féllu þónokkur fyrir þá í leiknum. Tékkum tókst ekki að nýta sér þau í þau örfáu skipti sem gríska vörnin gaf færi á sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×