Skoðun

Huggulegt á hjólinu

Hjólreiðar - Kári Harðarson Í tilefni af frétt í föstudagsblaðinu um umferðarþunga í höfuðborginni vil ég benda á merkar framfarir í hjólreiðum. Á meðan umferðin í Reykjavík þyngdist varð regnfatnaður sífellt fullkomnari. Ökumenn sem ég hjóla fram hjá (þeir keyra stundum fram úr mér, en það gerist æ sjaldnar) gætu haldið að hjólreiðar í Reykjavík séu ennþá óttalegt norp. Staðreyndin er að nú er afskaplega huggulegt þarna á hjólinu allan ársins hring, þökk sé nútíma fatnaði. Ég svitna ekki og verð aldrei regnblautur. Það má segja að þessi fatnaður hafi gert meira fyrir veðrið á Íslandi en sjálf gróðurhúsaáhrifin. Gírar sjá um að mótvindur er ekki vandamál og nú er líka hægt að fá nagladekk fyrir reiðhjól. Ég þarf að vísu hvorki að skutla barni í skólann eða skreppa á eigin bíl í vinnunni svo að því leyti er ég heppinn. Ég þarf að skipta um föt þegar ég mæti en ég er bara 15 mínútur í vinnu af Melum niður í Kringlu sama hvernig umferðin er. Skapið hefur líka batnað. Ég deili þessu með ykkur, þótt ég gæti haft hjólabrautirnar út af fyrir mig, vegna þess að ef fleiri hjóla þá mun hjólastígum vonandi fjölga þeim mun meira. Hjólreiðar hafa aldrei verið betri kostur.



Skoðun

Sjá meira


×