Sport

Jafnt hjá FH og Dunfermline

FH-ingar gerðu jafntefli, 2-2 við skoska úrvalsdeildarliðið Dunfermline á Laugardalsvelli í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópukeppni félagsliða í gærkvöld. FH-ingar hljóta að naga sig í handarbökin því eftir fínan fyrri hálfleik og tveggja marka forystu varð tankurinn tómur í síðari hálfleik og Skotarnir náðu að jafna leikinn. Eftri taugaveiklun í byrjun tóku FH-ingar völdin á vellinum og var stórhættulegir í sóknaraðgerðum sínum. Atli Viðar Björnsson gaf tóninn þegar stundarfjórðungur var liðinn en skot hans fór yfir. Mínútu síðar sundurspiluðu FH-ingar síðan vörn Dunfermline og endaði sóknin með því að Emil Hallfreðsson gaf fallega sendingu á Jónas Grana Garðarsson sem skoraði af öryggi úr miðjum teignum. Þremur mínútum síðar bætti síðan danski framherjinn Allan Borgvardt við öðru marki. Heimir Guðjónsson, fyrirliði FH-inga, átti frábæra sendingu á Guðmund Sævarsson sem var kominn einn í gegn um vörn Skotanna. Skot hans var varið en Borgvardt fylgdi vel á eftir og skoraði úr þröngu færi. Það sem eftir lifði hálfleiksins sýndu FH-ingar oft snilldartilþrif, héldu boltanum vel innan liðsins og hefðu að ósekju getað bætt við marki fyrir hlé. Jón Þorgrímur Stefánsson kom inn á varamaður fyrir Allan Borgvardt í hálfleik og hann var tvívegis nálægt því að bæta við þriðja marki Hafnarfjarðliðsins á fyrsta stundarfjórðungi hálfleiksins. Hann átti tvær fallegar rispur inn völlinn en fyrra skot hans hafnaði í stönginni og það síðara varði Stillie, markvörður Dunfermline. FH-ingar gáfu aðeins eftir um miðjan síðari hálfleikinn og í kjölfarið náði Dunfermline að minnka muninn. Það gerði Craig Brewster með skalla á 72. mínútu. Jón Þorgímur fékk síðan gullið tækifæri þremur mínútum síðar að auka forystuna á nýjan leik en skalli hans fór í þverslá marks Dunfermline. Skotarnir pressuðu síðan hressilega síðustu mínúturnar og náðu að jafna leikinn þegar nokkrar mínútur voru eftir. Það var litháíski varnarmaðurinn Andrius Skerla sem gerði það eftir darraðadans í vítateignum. FH-ingar geta sjálfum sér um kennt, þeir sprungu á limminu líkt og KR-ingar gegn Shelbourne fyrir skömmu. Þeir spiluðu mjög vel í fyrri hálfleik en eftir ágæta byrjun í síaðri hálfleik datt botninn úr leik liðsins og leikmenn Dunfermline komust á bragðið og tryggðu sér gott veganesti fyrir seinni leikinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×