Innlent

Enginn vilji til samkomulags

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, segir misskilnings gæta í orðum Gunnars I. Birgissonar, formanns bæjarráðs Kópavogs, í blaðinu í gær þar sem hann talar um árás Valhallar á sjálfstæðismenn í Kópavogi. "Í fyrsta lagi hef ég nú aldrei verið aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins," segir Vilhjálmur og áréttar að deilur sem risnar eru vegna neitunar borgarráðs á beiðni Kópavogs um lögn vatnsleiðslu um Heiðmörk komi Valhöll ekkert við. "Um er að ræða ágreiningsefni milli tveggja sveitarfélaga. Afstaða borgarráðs, þar á meðal mín og minna félaga, byggðist eingöngu á faglegri umsögn borgarlögmanns." Vilhjálmur tekur á hinn bóginn undir ummæli Sigurðar Geirdal, bæjarstjóra Kópavogs, um að deilan sé afturhvarf til fyrri samstarfsörðugleika sveitarfélaganna. "Ég tel í raun dapurt að R-listinn og meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs skuli ekki hafa náð samkomulagi um málið. Ég man þá tíð að borgarstjórnarmeirihluti sjálfstæðismanna í Reykjavík deildi hart við bæjarstjórn Kópavogs, þar á meðal bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, um skipulagsmál og réttarstöðu Reykjavíkurborgar í Fossvogsdal. Sú deila þótti ekki boða sérstök pólitísk tíðindi," segir Vilhjálmur. Hann segist hafa kallað sérstaklega eftir því í borgarráði hvort sáttaleiðin sé fullreynd í deilu bæjarfélaganna nú. "Ég fékk þau svör að búið væri að halda marga fundi og enginn vilji væri til samkomulags um málið." Vilhjálmur tekur fram að Gunnar Birgisson hafi ekki rætt málið við hann á fyrri stigum. Lögmaður Kópavogsbæjar hefur sett sig í samband við óbyggðanefnd og tilkynnt að von sé á erindi frá bænum vegna landskikans í Heiðmörk sem deilan snýst um. Sif Guðjónsdóttir, skrifstofustjóri óbyggðanefndar, bendir á að í raun sé allt Suðvesturland til meðferðar hjá nefndinni og ekki liggi fyrir nákvæmlega um hvaða landskika sé verið að deila, eða hvort ríkið hafi gert kröfu í landið. "En það verður skoðað nánar þegar erindi berst frá Kópavogsbæ," segir hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×