Skoðun

Saddam, Brúskur og Írak

Saddam, Brúskur og Írak  - Jens Guð Írakar hata Saddam Hussein. Hann pyntaði þá og drap með köldu blóði (ekki heitu eins og algengast er). Ef Saddam var ósammála einhverjum ráðherra sinna lét hann sér ekki nægja að slá kauða eldsnöggt í höfuðið með reglustriku. Nei, Saddam skaut ráðherrann eldsnöggt í höfuðið með byssu. Snéri sér svo að hinum ráðherrunum og spurði hvort fleiri væru á sömu skoðun. Jafnan voru þá allir ósammála þeim nýskotna. Sjaldan þurfti Saddam því að skjóta fleiri en 1 ráðherra á fundi. Aldrei var þó skortur á ráðherraefnum, fremur en hjá Framsóknarflokknum. Lengst af var Bandaríkjamönnum og öðrum vesturlandabúum hlýtt til Saddams. Hann þótti staðfastur og viljugur. Til viðbótar gerðu þeir oft góðan bissniss saman, vinirnir. M.a. var Saddam séð fyrir nægum efnavopnum til að hafa hemil á fólksfjölgun Kúrda. Sömuleiðis var Saddam séð fyrir fjölbreyttum vopnum til að halda úti áratugarlöngu stríði við Írani. Að vísu laumaði bandaríkjaforseti - án vitundar og vilja þings - hliðstæðum vopnabúnaði til Írana. Þannig gátu Saddam og klerkastjórnin í Íran alltaf drepið álíka marga úr hvoru liði í áratug. Og allir voru ánægðir með sinn bissniss. Einkum Contra-liðar í Nicaragua sem fengu gróðann af vopnasölunni til Írans í bónus fyrir að þiggja þjálfun í hryðjuverkum af hálfu Brúsks eldri og félaga hans hjá CIA. Vegna haturs Íraka á Saddam þorði kallinn ekki að láta sjá sig opinberlega. Þess í stað var 5 Írökum breytt með lýtaaðgerðum í tvífara hans. Þeir voru pyntaðir til að koma fram við opinber tækifæri sem Saddam. Samhliða framleiðslu á tvíförum hóf Saddam umfangsmikla framleiðslu á gereyðingavopnum. Heimsbyggðinni stafaði ógn af. Að baki gereyðingarvopnabúri Saddams lá illur ásetningur. Öfugt við aðra sem framleiða gereyðingavopn í friðsamlegum tilgangi. Það getur alltaf verið gott að eiga gereyðingarvopn til friðsamlegra nota. En Saddam huggðist eyða allri heimsbyggðinni á 45 mínútum. Nema Írak og Afganistan. Eins og Brúskur W. hefur bent á þá tók Saddam við af Bandaríkjunum að stýra hryðjuverkum Osama bin Ladens, sem hefur gert út frá Afganistan síðan Bandaríkin studdu talibana til valda þar. Og ekki lýgur Brúskur fremur en Blair. Ja, að vísu ljúga þeir félagar stundum. En ekki viljandi. Bestu leyniþjónustur heims (að mati Halldórs Ásgrímssonar) gefa þeim bara i ógáti rangar upplýsingar. Eins og gerist og gengur. Vegna þessa var nauðsynlegt að hernema Írak, koma böndum á gereyðingarvopnabúrið og refsa Saddam fyrir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. sept. Í ringulreið innrásarinnar í Írak týndust gereyðingarvopnin. Saddam fann þau ekki þegar hann ætlaði að beita þeim gegn innrásarher Bandaríkjanna og Íslands. Síðar fagnaði Halldór Ásgrímsson um heimssögulegan viðburð þegar íslenskir gereyðingavopnafræðingar duttu um hin hræðilegu vopn. Heimssögulegi viðburðurinn fór framhjá heimspressunni. Þrátt fyrir að 9 af hverjum 10 kjósendum hafi ekki krossað við Halldór í síðustu kosningum þá verður ekki frá honum tekið að hann - einn allra þjóðarleiðtoga heims - býr yfir leyndarmáli um heimssögulegan viðburð. Burt séð frá því. Hvað varð um tvífarana hans Saddams? Hvernig væri að íslenska hernámsliðið reyndi að finna þá? Það yrði heimssögulegur viðburður.



Skoðun

Sjá meira


×