Erlent

Flestir hafa látist í Kína

Jarðskjálftinn í Indónesíu á sunnudaginn sem varð að minnsta kosti 55 þúsund manns að bana í Asíu og Afríku er eins og staðan er í dag níundi mannskæðasti jarðskjálftinn frá því árið 1900. Mannskæðasti skjálftinn á síðustu öld var sumarið 1976 í borginni Tangshan í norðausturhluta Kína. Þá létust um 255 þúsund manns í jarðskjálfta sem mældist 7,5 á Richter-skala. Nokkrum dögum áður en skjálftinn skók borgina voru ýmis teikn á lofti um að jarðskjálfti væri í vændum. Vatnsyfirborð í vatnsbrunnum hækkaði og lækkaði þrisvar sinnum og dýr hegðuðu sér undarlega. Heimildir eru um að þúsundir hænsna hafi ekki étið neitt dagana fyrir skjálftann stóra og hlaupið um í örvæntingu. Annar mannskæðasti skjálftinn síðan árið 1900 var líka í Kína. Í desember árið 1920 létust um 200 þúsund manns þegar jarðskjálfti sem mældist 8,6 á Richter skók héraðið Gansu í miðvesturhluta Kína. Skjálftinn náði yfir um 40 þúsund ferkílómetra svæði og lagði stóran hluta 10 bæja og borga í rúst. Þegar skjálftinn varð voru ekki til heimildir um stóran skjálfta á þessu svæði í yfir 300 ár. Tólf árum seinna, eða í desember árið 1932, skók annar stór skjálfti héraðið. Þá létust að minnsta kosti 70 þúsund manns. Mannskæðasti jarðskjálfti sem orðið hefur í Evrópu varð í Messina á Sikiley í desember árið 1908. Nótt eina milli jóla og nýárs vöknuðu íbúar hafnarborgarinnar við gríðarlegar drunur. Jarðskjálftinn, sem mældist 7,2 á Richter, varð í það minnsta 70 þúsund manns að bana. Þó að skjálftinn á sunnudaginn hafi verið gríðarlega mannskæður er ekki langt síðan þúsundir manna létust vegna álíka náttúruhamfara. Annan í jólum í fyrra fórust um 28 þúsund manns þegar jarðskjálfti reið yfir borgina Bam í suðausturhluta Íran. Mannskæðasti jarðskjálfti mannkynssögunnar varð hins vegar 23. janúar árið 1556. Þá er talið að um 830 þúsund manns hafi látist í jarðskjálfta sem skók héraðið Shensi í Kína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×