Innlent

Spáð vonskuveðri á gamlárskvöld

Horfur eru á vonskuveðri víða um land á gamlárskvöld og jafnvel útlit fyrir að fresta verði áramótabrennum á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem nokkrir dagar eru enn til áramóta geta spár breyst en spárnar á þessari stundu eru sammála um það hvernig veðrið verður á Íslandi um áramótin. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfréttamaður hefur rýnt í spárnar og neitar því ekki að þær gætu verið betri, sérstaklega með hliðsjón af vindhraða. Á gamlársdag er búist við að mjög djúp lægð, um 955 millibör, muni mjaka sér norður eftir Vesturlandi og vera við Vestfirði á miðnætti. Lægðinni fylgja skil og úrkoma. Að sögn Sigurðar mun vindhraði um miðjan dag á gamlársdag vera á bilinu 15-23 metrar á sekúndu, hvassast á sunnan- og suðvestanverðu landinu og nær hámarki um miðjan dag. Búist er við vægu frosti. Lægðinni fylgja talsverð él um kvöldið. Það verður helst á norðausturlandi sem flugeldar sjást almennilega en þar verður mjög hvasst. Veðrið skánar hins vegar þegar líður á kvöldið og verður gott á nýársdag. Áramótabrennur verða venju samkvæmt víða um land. Í Reykjavík verða tíu brennur, við Ægissíðu, í Skerjafirði, við Suðurhlíðar, Leirubakka, Suðurfell, á Fylkissvæðinu í Árbæ, við ÚIfarsfell, á Geirsnefi, í Gufunesi og við Laugarásveg. Svo gæti hins vegar farið að ekki verði hægt að kveikja í þeim á þeim tíma sem til stóð því þegar vindhraði er kominnn upp í 15-18 metra fer að orka tvímælis að eiga við eld, að sögn Sigurðar, sem gæti orðið raunin á sumum stöðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×