Innlent

Ofsaveður um tíma á landinu

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur spáir ofsaveðri, eða 23-28 metrum á sekúndu, suðvestanlands síðdegis og um norðaustanvert landið í kvöld. Suðvestanlands kemur vindurinn af hafi og verður sæmilega jafn en þar sem áhrifa fjalla gætir, t.a.m. norðan- og austanlands síðar í kvöld og nótt, verður vindurinn býsna kviðóttur. Einar segir að í slíku veðri geti verið hættulegt að vera úti við, lausir hlutir taki að fjúka og skemmdir geti orðið á föstum hlutum. Við hafnir ber að hafa varann á gagnvart kvöldflóðinu og huga að festingum báta og skipa. Búist er við að veðrið bresti á á tímabilinu frá klukkan 16 til 18 og að það muni vara í eina til tvær klukkustundir með ofankomu og slæmu skyggni. Eftir það mun lægja nokkuð. Að sama skapi má reikna með vestan- og norðvestan 20-25 m/s með snjókomu og skafrenningi norðan- og austanlands síðar í kvöld, eða á milli klukkan 21 og 24. Veðurútlit verður endurskoðað klukkan 16 og er fólk beðið að fylgjast frekar með veðurfregnum og fréttum í dag.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×