Innlent

Skoteldar tendraðir með varúð

MYND/Páll Bergmann
Að vanda verður árið kvatt með tilheyrandi sprengjulátum hér á Íslandi. Veðurspáin er ekkert alltof góð en búist er við stormi á Suður- og Vesturlandi síðdegis en norðan og austanlands í kvöld og nótt. Óskar Bjartmarz, varðstjóri hjá lögreglunni í Reykjavík, biður fólk að fara að reglum um meðferð skotelda og hafa aðstæður í huga. Þá segir hann foreldra bera ábyrgð á börnum sínum og hvetur þá til að fylgjast vel með þeim þessa dagana. Fikt barna með skotelda getur haft alvarlegar afleiðingar. Í gær urðu t.a.m. tvö talsvert alvarleg slys þar sem unglingar voru að taka púður úr skotkökum til að búa til annars konar sprengjur með þeim afleiðingum að sprengiefnið sprakk í andlitið á þeim. Uppgötvast hefur að Landsbjörg hefur selt eitthvað af gölluðum flugeldum sem kallast „Hnífur“. Þeir hafa gert ráðstafanir í því sambandi og innkallað þá gölluðu flugelda sem sendir hafa verið í sölu víða um land. Landsbjörg leggur áherslu á að þeir sem hafi keypt þessa flugelda skili þeim á næsta sölustað og fái annað hvort endurgreitt eða inneign fyrir öðrum flugeldum. Valgeir Elíasson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir björgunarsveitirnar mjög ánægðar með sölu flugelda og jafnvel er búist að salan aukist frá síðasta ári, sem aftur var metár. Í það minnsta virðist greinilegt að Íslendingar láta ekki leiðindaveðurspá hamla flugeldagleðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×