Innlent

Mislæg gatnamót rísa

Mislæg gatnamót munu rísa á Hellisheiði við Þrengslavegamót á næsta ári. Til stendur að færa hringveginn á heiðinni og bæta við einni akrein frá Litlu kaffistofunni að Hveradalabrekku að sögn Svans Bjarnasonar. Mislægu gatnamótin eru þau fyrstu á hringveginum utan höfuðborgarsvæðisins en einnig verða mislæg gatnamót á nýrri Reykjanesbraut sem nú er unnið að. Samhliða framkvæmdunum á Hellisheiði á að búa til stefnugreind vegamót þar sem Hamragilsvegur mætir hringveginum að sögn Svans. Einnig á að lagfæra afleggjarann að Litlu kaffistofunni. Fyrsti áfangi framkvæmda við nýjan Suðurstrandarveg, milli Grindavíkur og Þorlákshafnar, er einnig í útboði. Ákveðið hefur verið að færa 140 milljónir sem nota átti til þess verks til framkvæmdanna á Hellisheiði. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar á heiðinni er áætlaður um 400 milljónir. Framkvæmdirnar á Hellisheiði verða boðnar út í byrjun janúar næstkomandi og á framkvæmdunum að ljúka í lok október á næsta ári að sögn Svans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×