Innlent

Mengunarslys rannsakað

Lögreglan á Patreksfirði rannsakar nú mengunarslys sem varð í höfninni þar í gærkvöldi, en tildrög þess eru með öllu ókunn. Menn urðu þess fyrst varir að ekki var allt með felldu, þegar megnan díselolíufnyk lagði með hægum andvara inn yfir bæinn. Við athugun kom í ljós að talsvert var af olíu í höfninni. Þegar var gripið til búnaðar frá Siglingastofnun til að girða olíuflekkinn af og þegar jók í vindinn síðar um kvöldið lagði flekkinn inn í svonefndan krók í höfninni, þar sem smábátarnir hafa stöðu. Lögregla kallaði út smábátaeigendur og vélstjóra stærri báta til að kanna olíuleiðslur í öllum bátum, en hvergi fanst leki. Vitað er að olíubíll fyllti á tvo báta í höfninni í gær, en ekki er vitað til þess að neitt hafi farið úrskeiðis við það, þannig að enn er allt á huldu með uppruna olíunnar. Flekkurinn er nú afgirtur inni í króknum og þar sem um díselolía er að ræða, brotnar hún niður á tiltölulega skömmum tíma og á ekki að valda umtalsverðu tjóni á lífríki. Brýnt þykir hinsvegar að komast að orsökum þessa, svo þetta endurtaki sig ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×