Innlent

Styðja ákvörðunina

Meirihluti bankaráðs Íslandsbanka styður þá ákvörðun Bjarna Ármannssonar forstjóra bankans, að reka Jón Þórisson, staðgengil sinn, eins og hann gerði í gær. Um leið og fréttist af brottrekstrinum var gerð sú krafa að banakráð yrði kallað saman til aukafundar vegna málsins. Hann hófst klukkan hálftíu í morgun og stóð í röska klukkustund. Einar Sveinsson formaður bankaráðs sagði í viðtali við Morgunblaðið í morgun að Bjarni hafi tilkynnt sér um brottreksturinn áður en hann var gerður opinber, en tjáði sig ekki um það hver hefði óskað eftir aukafundi í bankaráði, en eftir því sem fréttaastofan kemst næst mun það hafa verið Helgi Magnússon, en ekki náðist tal af honum nú fyrir fréttir. Eftir fundinn sagði Einar Sveinsson að Bjarni Ármannsson nyti fulls trausts bankaráðsins, þannig að brottreksturinn stendur óbreyttur. Bjarni Ármannsson sagði hinsvegar eftir fundinn að þar hafi verið tekist á og það hafi ekki allir gengið sáttir af fundinum. Hann vísaði einnig á bug þeirri fullyrðingu Jóns Þórissonar að brottreksturinn hafi löngu verið ákveðinn, eða allt frá því að Jón lýsti þeirri skoðun sinni í haust að vel kæmi til greina að sameina Íslandsbanka og Landsbankann, en Bjarni er því andvígur. Þá vildi Bjarni ekki svara því hvort ráðning Jóns á Sveini Hannessyni í stöðu útibússtjóra hefði haft eitthvað að segja, en Einar Sveinsson formaður bankaráðs segir að Bjarni hafi ráðningamál á sínum höndum. Niðurstaða bankaráðs hafi verið að lýsa fullum stuðningi við hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×