Erlent

Margir vissu af pyntingum

Nýjar upplýsingar frá leyniþjónustu Bandaríkjanna leiða í ljós að pyndingar bandarískra hermanna á írökskum föngum hafa verið mun víðtækari og kerfisbundnari en áður var talið. Jafnframt er nú ljóst að mun fleiri bandarískir embættis- og stjórnmálamenn vissu af þessu hátterni en hingað til hefur verið viðurkennt. Þessar nýju upplýsingar er að finna í ýmsum skjölum frá alríkislögreglunni, FBI, en þessi skjöl hafa verið lögð fram í dómsmáli sem bandarísku mannréttindasamtökin American Civili Liberties hafa höfðað á hendur Bandaríkjastjórn til að fá úr því skorið hvort brotið hafi verið á föngum í haldi stjórnarinnar. Í þessum skjölum er að finna skelfilegar lýsingar á því hvernig fangar í Írak eru teknir kyrkingataki, barðir og logandi sígarettum stungið inn í eyrun á þeim. Þessum pyndingum er lýst í minnisblaði frá FBI sem er dagsett um tveimur mánuðum eftir að upp komst um pyndingarnar í Abu Ghraib fangelsinu í Írak. Virðist því sem öll umfjöllunin og fordæmingin á því máli hafi ekki haft neitt að segja um bætta meðferð írakskra fanga. Þá eru einnig lýsingar á hrottalegri meðferð fanga í Guantanamo á Kúbu þar sem þeir eru hlekkjaðir á höndum og fótum, látnir liggja á gólfinu og pissa og kúka á sig, matar- og vatnslausir annað hvort í fimbulkulda eða steikjandi hita. Af þessum skjölum sem eru skrifuð á síðustu tveimur árum má einnig ráða að mun fleiri vissu af þessum pyndingum og yfirheyrsluaðferðum en hingað til hefur verið viðurkennt. Nokkuð stór hópur embættismanna í Washington hefur reglulega fengið upplýsingar um hversu víðtækar þessar pyndingar hafa verið án þess að grípa inn í. Þetta rennir stoðum undir það sem fangaverðirnir hafa sjálfir sagt, það er að þeir hafi aðeins verið að framfylgja skipunum sinna yfirmanna og að aðferðirnar hafi verið viðurkenndar. Aðeins nokkrir lágt settir hermenn hafa verið ákærðir og dæmdir fyrir illa meðferð á föngum í Abu Ghraib en enginn yfirmaður hefur enn tekið ábyrgð á málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×