Erlent

100 þúsund hafa látist í Súdan

Hátt í tvær milljónir Súdana eru í flóttamannabúðum í Darfurhéraði í vestur Súdan. Um eitthundrað þúsund manns hafa látið lífið í átökum uppreisnarmanna og stjórnarliða. Hjálpar- og mannúðarstofnanir óttast að sú tala kunni að margfaldast á næstu mánuðum. Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður Stöðvar 2 og Bylgjunnar, er í Darfurhéraði. Á næstu dögum verður skrifað undir friðarsamkomulag á milli Norður- og Suður-Súdans sem bindur enda á tuttugu ára borgarastyrjöld sem hefur kostað tvær milljónir mannslífa. Á sama tíma blossa upp harðvítug átök í Darfurhéraði á milli uppreisnarmanna og stjórnarhersins. Þessi átök, sem í stuttu máli snúast um völd og efnisleg gæði, hafa á síðustu mánuðum leitt til þess að hátt í tvær milljónir manna hafa mátt flýja heimili sín. Hersveitir sem eru á mála hjá ríkisstjórninni hafa brennt og eyðilagt yfir 400 þorp í héraðinu og það er talið að um eitthundrað þúsund manns hafi þegar látið lífið í átökunum. Í helstu borgum héraðanna ríkir friður en utan þeirra eru skærur og átök. Þegar ég var á einu sjúkrahúsa Rauða krossins í Savingi í Vestur-Súdan í fyrradag voru nýkomnir inn fimmtán súdanskir karlmenn með skotsár, sumir afar illa haldnir. Vegurinn á milli Savingi og Myala í Suður-Darfur hefur verið lokaður þar sem hætta er á fyrirsát og gildir þá einu hvort menn eru á bílum merktum þeim fjölmörgu hjálparsamtökum sem hér leggja hönd á plóginn. Um 130 flóttamannabúðir eru í Darfur. Rauði krossinn heldur uppi umfangsmiklu hjálparstarfi á svæðinu og er þetta umfangsmesta aðgerð samtakanna í heiminum í dag. Alls eru 200 erlendir sendifulltrúar í landinu, auk 2000 Súdana, sem sinna hjálparstarfi á vegum Alþjóða Rauða krossins. Aðstoðin er margvísleg: í formi matargjafa; fatnaði, ábreiðum og eldhúsáhöldum er dreift til fólks, sjúkrahús eru starfrækt á vegum Rauða krossins og vatns- og hreinlætisaðstöðu hefur verið komið upp víða. Ástandið í Darfur viku fyrir jól er brothætt. Tveir breskir starfsmenn hjálparsamtaka voru myrtir fyrir nokkrum dögum og dæmi eru um að fólk í hjálparstarfi hafi verið stöðvað og því misþyrmt. Ljóst er að verði hjálparstarfinu ógnað og óöldin magnast þá blasið algjör neyð við hundruðum þúsunda, ef ekki milljónum, manna hér í Darfur á næstu vikum og mánuðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×