Lífið

Líður langbest á morgnana

Björg Eva Erlendsdóttir fréttakona á Ríkisútvarpinu er 44 ára í dag. Tímamót hringdu í Björgu, þar sem hún var við störf á Fréttastofu Útvarps. Björg Eva er þingfréttamaður útvarpsins og við spurðum hana fyrst hvað hún væri að gera meðan þingið er í jólaleyfi. " Ég geng bara vaktir. Morgunvaktirnar helst. Ég var nú á morgunvakt hérna í nokkur ár. Mér finnst það ákaflega þægilegt." Og tímamótin lögðu spurningu fyrir Björgu Evu sem er allt að því ósæmileg, svona kannski næst því að spyrja konu um aldur. Hvenær vaknarðu á morgnana? "Ég vakna alltaf hálf sex. Ég vakna ekki fyrr en þetta af því ég þarf ekki að mála mig fyrir morgunvaktirnar í útvarpinu. Ef ég þyrfti að mála mig yrði ég að vakna hálftíma fyrr" Það slær þögn á tímamótamann. Eins gott að hann þerf ekki að mála sig. Þú ert svona mikil morgunmanneskja? "Já mér finnst afskaplega gott að vakna snemma. Og ég er svo sem ekki ein. Við erum fleiri sem viljum vera í vinnunni á morgnana. Vinur minn Gissur Sigurðsson, hann hringir stundum í rauðabýtið." Hvernig hefur þingið verið í vetur? "Það hefur verið frekar dauft eins og allir hafa séð sem fylgst hafa með. Þingmenn segja mér að þeir séu bara enn að jafna sig eftir sumarið enda var það ótrúlega átakamikið og reyndar má segja að þetta hafi verið alveg stanslaust stuð í þinginu í fyrra frá því eftirlaunafrumvarpið var lagt fram. En ég held að þeir séu að sækja í sig veðrið. Ég spái því að þetta verði miklu tíðindameira eftir að þingið kemur saman aftur, 24. janúar." Og hvað ætlarðu svo að gera á sjálfan afmælisdaginn? "Ég byrja nú á góðum morgunmat. Ég ætla í bæinn og kaupa jólagjafir en svo held ég obbolítið boð. Ég er ekki búin að skrifa gestalistann en býð sjálfsagt einhverjum starfsfélögum mínum."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.