Innlent

Nýr möguleiki til endurfjármögnuna

Líklegt er að fólk sem er mjög skuldsett og hafði hugsað sér að taka 80 prósenta íbúðalán til að endurfjármagna hætti nú við það og ákveði einfaldlega að selja íbúðir sínar, að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Tryggvi Þór segir að tilkoma 100 prósenta íbúðalánanna opni fyrir nýjan möguleika hjá fólki til að endurfjármagna skuldir sínar. Lánin séu aðeins veitt til íbúðakaupa og því sé vel hugsanlegt að einhverjir ákveði að selja íbúðir sínar og gera þannig upp skuldir sínar. Þeir muni síðan notfæra sér 100 prósenta lánin til að kaupa nýja íbúð. Þannig losni þeir við óhagstæð lán en veðsetji nýju eignina upp í topp með 4,2 prósenta láni. Aðspurður hvers vegna bankarnir bjóði bara 100 prósenta lán til íbúðakaupa en ekki til endurfjármögnunar segir Tryggvi Þór: "Ætli þeir séu ekki að gera það til þess að standa eitthvað á móti þessum straumi að fólk sé að auka neyslu með þessum lánum. Það eru kannski margir sem ekki eru tilbúnir að selja húsnæðið sitt en væru tilbúnir að taka 100 prósenta lán á íbúðina sem þeir eiga ef þeim byðist það."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×