Sport

Birgir Leifur á góðu skriði

"Mér gekk mjög vel á síðasta hringnum um helgina og ef ég held áfram að spila þannig á ég að geta komist alla leið," segir Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr GKG, en hann tryggði sér um helgina þátttökurétt á lokastigi úrtökumótanna fyrir evrópsku mótaröðina í golfi en það mót hefst á fimmtudaginn kemur. Nái Birgir Leifur að vera meðal efstu manna á því móti hlýtur hann að launum fullan þátttökurétt á allri mótaröðinni í Evrópu á næsta ári en um miklar peningaupphæðir er að keppa þar. "Það er náttúrlega það sem ég hef stefnt að í langan tíma og ég er tilbúinn í slaginn. Ég hef verið ánægður með mitt spil undanfarið og sjálfstraustið er til staðar og ef allt gengur eftir næ ég að klára þetta verkefni." Um þúsund keppendur hófu leik á úrtökumótunum sem fram hafa farið undanfarin misseri en aðeins um 170 þeirra öðlast rétt til að taka þátt á mótinu um næstu helgi. Þarf Birgir á öllu sínu að halda til að ná takmarki sínu en hann þarf að vera meðal 20-30 efstu manna til að tryggja sér farmiðann inn á mótaröðina og upplifa þar með langþráðan draum sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×