Sport

Þórhallur á leiðinni í Fram

Knattspyrnumaðurinn Þórhallur Dan Jóhannsson virðist vera búinn að finna sér félag fyrir næsta sumar en allar líkur eru á því að hann semji við Fram um helgina. Hann hafði einnig verið orðaður við Val en sögusagnir af meintum áhuga Vals á Þórhalli virðast hafa verið byggðar á mjög veikum grunni, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. "Ég vil ekkert staðfesta í þessu máli en neita því ekki að við höfum rætt við Þórhall," sagði Finnur Thorlacius, formaður rekstrarfélags Fram, í samtali við Fréttablaðið í gær. "Það er smá sprettur eftir í þessu hjá okkur en það eru líkur á því að við náum samningi við Þórhall." Þórhallur var þögull sem gröfin í gær en játaði þó að hann væri búinn að ákveða hvar hann ætlaði að spila á næstu leiktíð. "Já, ég er búinn að ákveða mig og geng vonandi frá mínum málum um helgina og í síðasta lagi á mánudag. Ég ætla samt ekkert að segja þér hvaða félag um ræðir núna," sagði Þórhallur við Fréttablaðið í gær en hann yfirgaf uppeldisfélag sitt, Fylki, mjög óvænt á dögunum eftir að samningaviðræður hans og Árbæinga sprungu í loft upp með miklum látum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×