Skoðun

Lögmæt skotmörk

Atburðurinn í Kabúl - Elías Davíðsson Ég las viðbrögð þriggja þingmanna við atburðinum í Kabúl á laugardaginn, sem birtust á Visir.is  undir nafni Guðmundar Magnússonar.Ég var undrandi á því að enginn viðmælenda, né Guðmundur sjálfur, minntust á þjóðréttarlegar hliðar þessa máls.Samkvæmt ákvæðum þjóðaréttar og Sáttmála Sameinuðu þjóðanna, var sjálft árásarstríðið gegn Afghanistan ólögmætt og jafnvel saknæmt árásarstríð. Stríðsaðgerðir eru aðeins heimilar í þjóðarétti við tvenns konar aðstæður: Annars vegar þegar heimild til þeirra er veitt af hálfu Öryggisráðsins og hins vegar í neyðarvörn. Hvorugt var um að ræða í þessu tilfelli. Bandaríkin gáfu í skyn, án þess að segja það berum orðum, að árás þeirra á Afghanistan hefði verið í samræmi við 51. grein í sáttmála SÞ sem kveður á um sjálfsvörn og bentu á meintu árásir Al Qaeda 11. september 2001 til réttlætingar. En hér var ekki um neyðarvörn að ræða heldur um meinta hefndaraðgerð. Það er álit flestra sérfræðinga að jafnvel þótt Bandaríkin hefðu lagt óyggjandi sannanir um að árásirnar 11. september ættu einhver tengsl við starfsemi Al Qaeda í Afghanistan (sannanir sem aldrei voru lagðar fram), hefði árásarstríðið samt verið ólögmætt þar sem ekkert benti til þess að Bandaríkjunum stafaði brýn og alvarleg hætta af árás frá Afghanistan sem krefðist tafarlausrar árásar. Bandaríkjunum var því skylt að leita heimildar Öryggisráðsins til hernaðaraðgerða. Það er auk þess grundvöllur þjóðaréttar að aðilar að vopnuðum átökum, þ.m.t. þeir aðilar sem hernema Afghanistan, eru lögmæt skotmörk gagnaðila. Þar af leiðandi eru íslenskir "friðargæsluliðar" lögmæt skotmörk afghanskra skæruliða. Árásir á íslenska "friðargæsluliða" eru heimilaðar skv. ákvæðum Genfarsáttmála sem Ísland er aðili að. Þessar árásir teljast hvorki morð, hryðjuverk né stríðsglæpir.Erlent herlið í Afghanistan er ekki staðsett þar, andstætt því sem á við hér um herliðið á Miðnesheiði, að beiðni lýðræðislegra kjörinna stjórnvalda. Það er erlenda herliðið sem hefur komið stjórninni í Kabúl á laggirnar og ver hana. Þetta er sannkölluð "leppstjórn". Frjálsar kosningar geta ekki farið fram í hernumdu landi. Sjálfur "forseti" Afghanistans, sem er sagður hafa fengið 64 prósent atkvæða í nýlegum kosningum, treystir sér ekki til að ferðast um götur eigin höfuðborgar nema undir vernd erlends hernámsliðs. Hann treystir ekki landsmönnum sínum til að verja sig. Hvað segir þetta um vinsældir hans og um lögmæti þeirrar stjórnar sem situr í Kabúl? Séu þessi mál skoðuð frá sjónarmiði gildandi þjóðaréttar, kemur berlega í ljós að réttarstaða íslenskra "friðargæsluliða" í Afghanistan er sú sem vopnaðar sveitir njóta í stríði. Gagnaðilinn má fella þá eða taka þá til fanga. Íslendingar hafa ekki bolmagn til að hneykslast á árásunum gegn hernámsliðinu. Vilji Íslendingar tefla lífi landsmanna sinna í þágu ólögmæts hernáms, þá verður þjóðin að taka því sem þetta getur haft í för með sér. Þeir sem fara til Afghanistan til að fá mikil laun og lenda í ævintýrum ættu að gera það á eigin ábyrgð og gera sér fulla grein fyrir að þeir taka þátt í lögleysu og tefla líf sitt og annarra í hættu. Elías Davíðsson



Skoðun

Sjá meira


×