Skoðun

Spámaðurinn og föðurlandið

Kvikmyndaverðlaun - Úrsúla Jünemann Nýlega bárust fréttir um að tveir kvikmyndagerðarmenn hefðu hlotið verðlaun í útlöndum. Ómar Ragnarsson fékk aðalverðlaun í Canavese á Ítalíu fyrir heimildarmynd sína um Kárahnjúka "In Memoriam" sem er stytt útgáfa af myndinni "Á meðan land byggist". Páll Steingrímsson var verðlaunaður í St. Pétursborg í Rússlandi fyrir "World of Solitude" eða "Öræfakyrrð". Ég samgleðst báðum mönnunum innilega og óska þeim til hamingju því þeir hafa unnið sín verk þrátt fyrir mikinn mótbyr. Ómar lagði aleiguna sína undir í þessa kvikmynd sína, fékk hvergi styrki fyrir hana, á meðan Landsvirkjun sem er jú ríkisfyrirtæki fjármagnar sínar áróðursmyndir um gerð Kárahnjúkavirkjunar allmyndarlega. Ómar segist hvorki hafa tíma né peninga til að senda verðlaunamyndina sína á fleiri kvikmyndahátíðir. Kvikmynd Páls hefur bara verið sýnd einu sinni hér á landi, á kvikmyndahátíð Landverndar sl. vor. Ríkissjónvarp og Stöð 2 vildu ekki sýna hana! Nú spyr maður: Hvað veldur því að íslenskum kvikmyndum sem fá verðlaun í útlöndum er hafnað hérlendis? Báðar myndirnar hafa mikið upplýsingagildi en þær fjalla um viðkvæm mál fyrir ráðamenn þjóðarinnar. Þessum mönnum finnst greinilega óæskilegt að íslenski almúginn spái of mikið í þessi mál. Ég finn mjög greinilega bananalykt af þessu og þarna er farið bak við þjóðina, sem á rétt á því að fá bestu upplýsingar um mál sem alla snerta. Ríkissjónvarpið á skilyrðislaust að sýna báðar verðlaunamyndirnar fljótlega og það á góðum útsendingartíma. Ekki væri verra að sleppa í staðinn einhverju af þessu ómerkilega bandaríska léttmeti, sem er næstum daglega troðið upp á áhorfendur sjónvarpsins.



Skoðun

Sjá meira


×