Innlent

Héraðslistinn sigraði

Héraðslistinn er sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna sem haldnar voru í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Heráði í gær. Í sumar runnu Austur-hérað, sem er Egilsstaðir og hrepparnir, Fellahreppur og Norður-héraðs saman í eitt sveitarfélag. Sameiningin var reyndar kærð til félagsmálaráðuneytisins en þar var ekki fallist á kæruna. Kjörsókn var heldur dræm í gær, eða 66,38%. Minnst var kjörsókn meðal íbúa Austur Héraðs þar sem búa 1600 af 2100 sem voru á kjörskrá. Úrslit kosninganna voru á þá leið að Héraðslistinn fékk fjóra menn kjörna, Framsóknarflokkurinn og Sjálfsstæðisflokkur þrjá menn hvor, og listi áhugafólks um sveitarstjórnarmál einn. Skúli Björnsson aðstoðarskógarvörður Hallormsstað er oddviti Héraðslistans. Hann er að vonum ánægður með niðurstöðuna og segir hana þvert á spá spekinga fyrir kosningar, en hann hafi nú samt haft trú á sínum flokki. Hann segir engar umræður farnar af stað um með hverjum verði farið í samstarf, en hins vegar séu skilaboðin nokkuð skýr. Ekki var talinn ýkja mikill munur áherslum listanna en Héraðslistinn skar sig úr hvað varðaða skipulagsmál og stjórnskipulag. Skúli segir að það hljóti að hafa haft sitt að segja að listinn hafi lagt til að tengja þéttbýliskjarnana og nýta þá betur saman sem eina heild. Þá hafi listinn einnig sett fram hugmyndir um að gera stjónskipulagið einfaldara og markvissara og það virðist hafa fallið kjósendum vel í geð. Þeir sem nýttu atkvæðisrétt sinn í gær fengu einnig tækifæri til að segja sína skoðun á því hvaða nafn nýja sveitarfélagið skuli bera. Þau nöfn sem kosið var um voru; Egilsstaðabyggð, Fljótsdalshérað og Sveitarfélagið Hérað, en jafnframt gafst kjósendum kostur á að leggja fram annað nafn frá eigin brjósti. Sérstök nafnanefnd fer yfir niðurstöður þessarrar kosningar og var hún að koma saman fyrst nú í morgun. Óvíst er hvenær er að vænta niðurstöðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×