Sport

Leifur flautar ei meir

Intersportdeild karla í körfubolta hefst í kvöld en þar vantar þó einn mann sem hefur dæmt í nánast hverri umferð síðustu árin. Leifur Garðarsson körfuknattleiksdómari tilkynnti í fyrradag að hann hafi ákveðið að leggja flautuna á hilluna eftir 17 ára farsælan feril í dómgæslu en Leifur tók dómarapróf árið 1987 og varð FIBA-dómari árið 1993. Leifur tók FIBA prófið á Rimini á Ítalíu árið 1993 og til dagsins í dag hefur Leifur dæmt 37 leiki í Evrópukeppni félagsliða og farið á níu mót á vegum FIBA auk annarra ferða með íslenskum liðum. Leifur hefur dæmt 389 leiki í Úrvalsdeild og það er bara Kristinn Albertsson sem hefur dæmt meira en Kristinn á að baki 432 dæmda úrvalsdeildarleiki. Leifur hefur auk þess dæmt um 80 leiki í úrslitakeppni karla, sex bikarúrslitaleiki karla og þrjá bikarúrslitaleiki kvenna. Leifur hefur dæmt tæplega 800 leiki í öllum mótum á vegum KKÍ og með æfingamótum er þessi tala örugglega komin yfir 1000 leiki. Það er óhætt að segja að Leifur hafi verið í sérflokki í dómarastéttinni undanfarin ár en hann hefur síðustu sex árin verið kosinn besti dómari ársins af leikmönnum og þjálfurum úrvalsdeildarinnar. Leifur gerir grein fyrir ákvörðun sinni á heimasíðu Körfuknattleiksdómarafélagsins en vegna starfs síns sem skólastjóri Áslandsskóla í Hafnarfirði hefur verið erfitt fyrir hann að ferðast víða um Evrópu til dómgæslu á vegum FIBA en þar hefur helsta hvatning hans sem dómara legið. Leifur hefur unnið frábært starf í dómaramálum hér á landi því auk dómgæslunnar sat hann lengi í dómaranefnd KKÍ. Hans verður því sárt saknað úr íslenska körfuboltanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×