Skoðun

Í pössun til heilbrigðisráðherra

Reykingabann á veitingastöðum - Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, hyggst leggja fram frumvarp er bannar allar reykingar á veitingastöðum. Nú vill svo til að ég hef blessunarlega aldrei fiktað við sígarettureykingar og hef því ekki áhyggjur af því hvar ég fái að kveikja í rettunni. En ég lít svo á að ég hafi engu að síður mikilvægari hagsmuna að gæta í málinu. Þeir hagsmunir felast í því að taka ákvarðanir um mitt eigið líf sjálfur. Stjórnmálamenn sem alltaf vilja hafa vit fyrir fólki, alltaf stjórna því hvað aðrir eru að gera, fara alveg óskaplega í taugarnar á mér. Af hverju má eigandi veitingahúss ekki leyfa reykingar inni á staðnum sínum? Er einhver neyddur til þess að eiga við hann viðskipti eða sækja um vinnu hjá honum? Augljóslega ekki. Hvert er þá vandamálið? Ef fólk vill heldur borða á reyklausum veitingastað blasir við að staður sem framfylgir slíku banni af sjálfsdáðum mun laða til sín viðskiptavini. Franski heimspekingurinn Alexis de Toqueville lýsti einu sinni áhugaverðu afbrigði af ofríki. Hann sagði að ofríki ríkisvaldsins þyrfti ekki að felast í pyntingum og illverkum í garð þegnanna. Það væri til önnur tegund af ofríki, þar sem stjórnvöld kæmu fram við þegnana eins og lítil börn, óvita. Um slíkt ríki sagði Toqueville: "Því mætti líkja við foreldravaldið, hefði það þann tilgang að búa menn undir fullorðinsárin, en það hefur annan tilgang og ólíkan, að koma í veg fyrir, að menn fullorðnist... Það verndar menn, áætlar þarfir þeirra og sinnir þeim, auðveldar þeim að láta sér líða vel, ræður helstu áhugamálum þeirra, stjórnar framleiðslu, úthlutar eignum og skiptir með þeim arfi. Hvað er eftir annað en að taka af fólkinu ómakið við að hugsa og lifa?" Ég frábið mér það að fara í pössun til heilbrigðisráðherra. Ég veit að það er óhollt að reykja, borða feitan mat og fara með blautt hárið út í bítandi frost. En ég verð að fá að taka slíkar ákvarðanir sjálfur, án hjálpar Jóns Kristjánssonar. Ég tel mig raunar eiga heimtingu á því.



Skoðun

Sjá meira


×