Sport

Klárast á næstu dögum

Stjórn Handknattleikssambands Íslands mun ganga frá ráðningu nýs landsliðsþjálfara í síðasta lagi í byrjun næstu viku. Þetta staðfesti Guðmundur Ingvarsson, formaður HSÍ, í samtali við Fréttablaðið í gær. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins stendur valið á milli Viggós Sigurðssonar og Geirs Sveinssonar eins og upphaflega var talið. "Það er ýmislegt í gangi hjá okkur," sagði Guðmundur Ingvarsson leyndardómsfullur aðspurður um stöðu mála. "Við klárum þetta í byrjun næstu viku þótt ég hefði helst kosið að klára þetta fyrr. Það gæti reyndar vel farið svo en þetta verður klárað í næstu viku í síðasta lagi." Guðmundur vildi ekki staðfesta við hverja hefði verið rætt en Fréttablaðið heyrði hljóðið í Viggó Sigurðssyni og hann staðfesti það að hann hefði rætt við stjórn HSÍ. "Ég ræddi við stjórnina á mánudag og það var bara fínn fundur. Mér fannst fundurinn vera jákvæður. Þetta var alvöru fundur þar sem farið var yfir hluti eins og leikmannamál og annað," sagði Viggó og bætti við að hann hefði ekki hugmynd um hverja aðra stjórn HSÍ hefði rætt við eða hvort hann væri efstur á lista stjórnarinnar. "Þeir sögðust bara ætla að vera í sambandi við mig aftur en ég hef ekkert heyrt frá þeim enn sem komið er. Ég veit ekkert hvað þeir ætla að gera." Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ræddi stjórn HSÍ við Geir Sveinsson í gær en ekki náðist í Geir í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að fá það staðfest. henry@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×