Sport

Brown til sölu?

Sir Alex Ferguson, knattspyrnstjóri Manchester United, hefur í hyggju að setja varnarmanninn Wes Brown á sölulista, en sá síðarnefndi hafnaði nýlega samningstilboði frá United. Samningur Brown við United rennur út næsta sumar og vilja forráðamenn liðsins frekar selja kappann í janúar heldur en að fá ekkert fyrir hann í sumar. Brown er einn launalægsti leikmaður í þeim hópi leikmanna United sem spila reglulega og vilja forráðamenn félagsins ekki gefa honum langtímasamning á borð við aðra lykilmenn, aðallega vegna meiðslasögu kappans, en Brown hefur meðal annars tvívegis slitið krossband í hné. Sir Alex er ekki par sáttur við gang mála og sagði af því tilefni: "Við höfum gert drengnum tilboð og hann hefur neitað því. Þetta er hans ákvörðun, hann getur gert eins og hann vill. Það eru ekki fleiri viðræður á dagskrá, en við viljum koma í veg fyrir að hann fari á frjálsri sölu", sagði Ferguson við The Guardian og taldi að nýjum umboðsmanni væri um að kenna. "Það er ekki hægt að tjónka við fótboltamenn nú til dags", bætti Ferguson við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×